Morguninn var tekinn snemma eða kl. 06:10. Eftir sturtu var komið að morgunmatnum sem samanstóð af ommilettu að eigin vali ásamt brauði með sultu. Að loknum morgunmatnum var farið í bátinn sem tók okkur í land til að skoða stórann helli. Leiðsögumaðurinn sagði okkur að það væru 140 þrep upp í hellinn en það sem hann lét ósagt var að þar var gengið upp og niður. Þegar út var komið hafði Áslaug talið 718 tröppur. Við vorum eins og hundar á sundi þegar út var komið. Þegar við komum aftur um borð fórum við aftur í sturtu enda var lítið sem benti til þess að við hefðum gert það tæpum tveimur tímum áður. 

Nú tók við afslöppunartími og var því ekki úr vegi að fá sér ískalt hvítvín þótt ekki væri komið hádegi. Það var full þörf á því eftir allt vökvatapið í gönguferðinni. Ég reyndar skellti mér á sólbekkinn í hálftíma en þá voru þrumur og eldingar orðnar vaxandi þannig að stutt var í rigningu. Það stóð á jöfnu að þegar ég var kominn í skjól var eins og að himnarnir hefðu opnast og gusu af rigningu hent á okkur. Það meira að segja hvítnaði í báru um tíma meðan á þessu stóð. En tíminn var vel nýttur því leiðsögumaðurinn var með matreiðslunámskeið þar sem okkur var kennt að búa til ferskar vorrúllur. Síðan tók við hádegismatur þar sem heimamatur var í boði. 

Við vorum nú farin að nálgast höfnina en meðan skipið lagðist fyrir ankeri var okkur boðið upp á að horfa á Top Gear þátt sem fjallaði um för þeirra þremenning frá Saigon til Ha Long flóa. Þangað tókst Bandaríkjamönnum ekki að komast á þeim 10 árum sem þeir börðust þar. Um kl. 12:30 hófust flutningar á mannskapnum í land. Það var eftirtektarvert að allir urðu að fara í björgunarvesti í hvert sinn sem farið var í flutningsbátinn og ekki bara á okkar skipi heldur á öllum flutningsbátunum þar sem þeir verða að fylgja kröfu yfirvalda um slíkt. Upp á þetta passa þeir vel en ekki gert þó mikið úr því að festa vestin á sig. 

Það segir lítið af okkur fram eftir öllum degi enda vorum við í rútuferð til að við mættum á flugvöllinn í Hanoi um fimm leitið. Áströlsku vinkonurnar höfðu skilið ferðatöskurnar sínar eftir á hótelinu enda var þeim sagt að við myndum koma þangað aftur. Svo reyndist ekki vera en rétt áður en við komum á flugvöllinn var bílnum ekið út í kant og skömmu síðar kom annar sem stoppaði fyrir aftan okkur og viti menn, út komu ferðatöskurnar þeirra. Séð fyrir öllu hér en við fimm vorum nánast viss um að eitthvert vandamál yrði með þær. Þegar við komum á flugvöllin kom í ljós að við værum að fljúga á sitt hvorn flugvöllin, þær til Da Nag en við til Hue. Samt erum við á sama hóelinu í Hue. Við stefnum á að hittast í morgunmat á morgun. Við hjónin vorum ekki komin inn á hótelið fyrr en kl. 21 og þá var þreytan farin að segja til sín. Fórum á barinn til að fá okkur kokteil fyrir svefninn enda eru þeir rándýrir eða 110 þúsund sem leggur sig á rúmar 500 krónur.