Þvílíkur dagur svo ekki sé nú meira sagt. Reyndar byrjaði hann nokkuð snemma hjá okkur eða upp úr kl. 03 í nótt þegar þrumur og eldingar fóru af stað með látum og ausandi rigning í kjölfarið. Því til viðbótar hamaðist svo í vatnslásnum í vaskinum á klósettinu að ekki var svefnsamt. Ég reyndi að láta renna en það dugði lítið og á endanum var ekkert annað en að loka hurðinni á klósettinum og láta sig hafa það sem í gegn heyrðist. Það var því miður lítill svefn hjá okkur hjónunum það sem eftir lifði nætur en eitthvað þó. Við vorum mætt í morgunmat kl. 07 og hér var allt annað á boðstólum en á fyrra hóteli. Vísa ég þar til fyrri blogga um það mál. Við urðum fyrir miklum vonbrigðum þegar við komumst að því að áströlsku vinkonur okkar voru ekki að fara með okkur í ferð heldur væru þær í mun stærri hóp að fara á sömu slóðir. Vorum við þó alltaf nokkuð nálægt hverju öðru og gátum tekið faðmlög á milli.
En hvað gerðum við í dag? Þetta var eiginlega dagur stríðsátakanna sem skilur eftir sig afar blendnar tilfinningar. Ég sem strákur fylgdist með stríðinu og var að byrja í Stýrimannaskólanum þegar því lauk. Eitt og annað af því sem fyrir augum bar voru minningar úr fjölmiðlum sem og senur settar fram í bandarískum kvikmyndum. Þvílík hörmung sem þetta stríð leiddi af sér. Hallar vart á þá aðila sem hér börðust en Víetcong felldu fleiri landa sína en nokkru sinni Bandaríkjamenn. Við byrjuðum á minningarsafni um stríðið og afleiðingar þess sem áttu eftir að hafa gríðarlega eftirmála vegna eiturefnahernaðar. 


Eftir safnið fórum við í gömlu forsetahöllina sem stendur sem minnisvarði um tíð stjórnar Suður-Víetnam og ótrúlegt að það skyldi ekki jafnað við jörðu en þar varð skilyrðislaus uppgjöf endir á stríðinu þegar höllin var hertekin.


Við nutum þess að skoða síðan í kjölfarið pósthús borgarinnar sem og óperuhús og ráðhús borgarinnar sem í eina tíð var höfuðborgin. Ekki var auðvelt fyrir bílstjórann okkar að taka okkur upp því á hverju götuhorni voru lögreglumenn sem hindruðu að hægt væri að stöðva bifreiðar og því vorum við farin að elta skrattans bílinn en allt hafðist þetta að lokum.


Hádegismatur var næstur á boðstólum en þetta er skrítnast veitingastaður sem ég hef komið inn á. Þetta var einfaldlega útisundlaug með borðum í kring þar sem við borðuðum. Í boði var að taka sundsprett fyrir mat en við vorum ekki með sundfötin enda ekki varað við því að slíkt væri á boðstólum. Þar hittum við áströlskurnar okkar við mikla gleði.


Eftir matinn var farið í tveggja tíma akstur til að skoða Cu Chi göngin sem grafin voru af bændum, sem í raun voru skæruliðar, í þeim tilgagni að drepa Bandaríkjamenn úr launsátri. Enn og aftur dæmi um ótrúlega grimmd í hernaði en þær sögur sem sagðar voru verða ekki sagðar hér. Við lok ferðar fengum við að fara niður í göngin á smá kafla og var mikið varað við hvers væri að vænta, mikill hiti, innilokunarkennd, þrengsli og lítil birta. Að sjálfsögðu skellti ég mér niður í göngin en ég verð að segja að skríða um tankana í Sæbjörgu er margfalt erfiðara en að fara þá leið sem ég fóru um þessi göng. Merkilegt að hafa komið þarna en áhugi minn vaknaði eftir að Ólafur Ragnar og Dorrit komu hingað í heimsókn og frúin skellti sér niður í göngin. Það var reyndar boðið upp á að fara niður í holur sem þeir notuðu til að fara inn og út sem voru margfalt minni en aðalinngangar en ég reyndi ekki víð slíka innganga enda þarf petít fólk til að komast þar niður. Svo eru það myndirnar.