Nú er sunnudagur runninn upp en í morgunsárið fór Áslaug að hitta skraddarann við hliðina á hótelinu en sú hafði ekki setið auðum höndum í nótt því kjóllinn var tilbúinn og smellpassaði. Við vorum sótt á hótelið kl. 11 til að fara á flugvöllinn í Da Nang. Og viti menn við fórum ásamt ástralíuvinkonum okkar í sama bíl! Við fórum sameiginlega yfir ferðaplan okkar og erum búin að komast að því að við fylgjumst að allan tímann sem við erum mjög ánægð með enda hefur tekist mjög góður vinskapur við þær.
Við flugum frá Da Nang flugvelli og keyrðum því þangað frá Hoi An. Við höfðum keyrt í myrkri í gegnum Da Nang og nú komum við í björtu. Sannarlega borg sem ég hefði vilja sjá meira af enda var hún afspyrnu falleg að sjá bæði í myrkri og björtu nánar. Við flugum til Nha Trang sem er túristabær ekki ósvipaður því sem við sjáum við Miðjarðarhaf. Munurinn er sá að hér eru rússar en ekki íslendingar. Alls staðar sem við höfum farið erum við ávörpuð á rússnesku en ég svara bara á minni kjarngóðu íslensku að ég viti ekki rassgat hvar þeir/þær séu að fara. Það dugar alveg ótrúlega vel því ég fæ afsakanir á ensku. Við fengum okkur drykk á bar þar sem þjónninn kom með allt á rússnesku þar sem honum fannst við vera svo þess leg.
Áslaug fór og dýfði tánum í Suður-Kínahaf og ég gerði slíkt hið sama þótt ég hafi snert það umtalsvert minna en mín elskulega eiginkona. Hef alltaf sagt að mér líði betur ofan á sjónum en í honum.
Við skoðuðum lítilsháttar mannlífið enda vorum við þreytt og ákváðum heldur að fara snemma í rúmið og geta tekið morgundaginn snemma þar af leiðandi. Hér er meðal annars lengsti kláfur í heimi þar sem hægt er að fara út í eyju í eigu miljarðarmærings sem hefur gert þar eins konar Disney garð. Meira sagt frá því síðar þegar við verðum búin að skoða þetta fyrirbæri.
Rákumst á veitingastað sem bauð upp á heilgrillaðan krókódíl en við ákváðum að finna okkur frekar einhvern annan en næsti staður bauð upp á fiskirétti. Þar mátti sjá fyrir utan fullt af vaskafötum með allskonar lifandi sjávarfangi sem við komumst að raun um að væri eiginlega matseðillinn. Við töldum því best að fara á veitingastað sem væri meira í hefðbundnum stíl með kjúkling og vorrúllum. Við leit að veitingastað fundum við að verið var að selja íslenska peninga og var sá íslenski fremstur allra mynta í þessari sölu.
Nú erum við á sjöundu hæð á hótelinu með sundlaugina á 22. hæð en þar ætlum við að byrja í fyrramálið.
En það er aldrei svo að mannlífið hafi ekki einhver áhrif á hughrifin að koma á stað sem þennan. Hér koma síðan nokkrar mannlífsmyndir en sú fyrsta verður reyndar af mér sem Áslaug tók af mér með minni uppáhaldsfígúru sem ég málaði á Öskjuna þegar ég tók við henni sem skipstjóri á síðustu öld. Ég tók hann um borð sem minn heillagrip og reyndist hann mér vel sem og öðrum sem tóku við því skipi því hann var enn á skipinu 20 árum síðar þegar skipið kom til hafnar í Reykjavík. Þá vissu allir um borð hver hafði málað hann á skipið. Þessi var reyndar með kjúkling en minn ekki en engu að síður þá yljaði það mér um hjartarætur að hitta hann hér.
3 Comments
Mummi
Afhverju hentuð þið ekki í að fá ykkur heilgrillaðann götu krókudíl.
Alls ekki slæmt kjöt!
Hilmar Snorrason
Var ekki nógu girnilegur á grillini 😊😊😊
Hilmar Snorrason
Veit um meira lystugra.