Dagurinn í dag var ekkert merkilegur í sjálfu sér en sannarlega verður hann ógleymanlegur. Ég verð meira að segja að hafa hann tvískiptan þrátt fyrir að hann átti bara að vera letidagur við sundlaugina. Við vorum reyndar komin ofaní kl. 9 í morgun en laugin var sjóðandi heit. Við stöldruðum stutt við þar sem við þurftum að fara til klæðskerans til að máta. Þegar við mættum hjá skraddaranum þá var hún svo ánægð með hvað Áslaug var glöð með dressið sem hún saumaði á hana að hún faðmaði hana af gleði. Þetta var ótrúlega skemmtileg stund að sjá gleðina hjá þessum tveimur konum. Yfir sig ánægðan viðskiptavin og kaupmaðurinn glaður yfir gleði viðskiptavinarins. Reyndar þurfti ég að koma aftur þar sem ermarnar voru aðeins of þröngar sem líklega má rekja til að vöðvarnir hafa vaxið milli daga enda fór ég ekki í neitt smáræðis nudd í gær og í dag er ég allur í marblettum eftir nuddið.


Áslaug féll reyndar fyrir kjól hjá skraddara sem er við hliðina á hótelinu og fékk hún hana til að snara í einn selskapskjól. Dóttir hennar var reyndar við lærdóm á tengiskrift sem ég var mjög ánægður með.
Við eyddum góðum tíma við laugina eða frá því um hálf ellefu og fram til þrjú í algjörri afslöppun. Gerist einfaldlega ekki betra.
Aftur var farið til skraddarans um fjögur og enn höfðu vöðvar mínir vaxið eftir lyftingar dagsins. Við fórum síðan í sólsetursiglingu í boði hótelsins og þar voru áströlsku vinkonur okkar með í för. Ljóst var að við vorum farin að sakna félagskapar hvors annars en eftir siglinguna var sest við marbakkan og drukkið eðalvín með sólarlaginu. Kvöldmarkaðurinn var svo eftirminnilegar að ég verð að gera sér kafla um hann enda eru þar myndir sem munu segja meira en nokkur orð.