Nú er kominn sunnudagur og aðeins eftir að tékka út af þessu hóteli og þá erum við hjónin alfarið á okkar eigin spítur komin. Við vorum búin að ákveða að taka tvo aukadaga áður en heimferðin skyldi hefjast svona rétt til að átta okkur á hvað við hefðum aðhafst. Fyrsta verk okkar eftir morgunmatinn var að skipta um hótel en nú skyldi haldið á Silverland Sakyo hótelið í Saigon. Það tók ekki langan tíma að komast á milli eða um 20 mínútur. Við gátum tékkað strax inn og fengum ekkert smá áhugavert herbergi. Ekki bara herbergið heldur allt hótelið. Nokkuð ljóst að japanir eru aðalviðskiptavinir þess og því bíð ég spenntur að sjá hvernig morgunmaturinn verður hér á hótelinu.
Dagurinn í dag var einfaldlega þessi dagur þegar hugurinn er laus við allt áreiti sem leggja þarf á minnið til að skilja eftir aukna þekkingu á lífsháttum þjóðar. Nú vorum við bara að horfa á mannlífið úti á götu í Saigon eða Ho Chi Ming borg. Við gengum um og skoðuðum verslanir og verslanamiðstöðvar en þó ekki í þeim tilgangi að versla heldur miklu frekar til að kynnast loftkælingakerfum þeirra. Þau kerfi stóðust alveg okkar væntingar í flestum tilfellum.  Meira að segja brugðum við út af vana síðustu vikna með að fá okkur ekki víetnamískan hádegismat heldur skelltum okkur á pizza stað sem sannarlega fékk háa einkunn hjá okkur hjónum.


Við tókum kvöldið snemma en ákváðum að snæða kvöldverðinn á hótelinu sem er með sushi stað. Áslaug er nú ekki fyrir þá tegund matar en ekki stóð á því að boðið var líka upp á eldaðan mat sem gladdi frúnna vel. Skruppum síðan út í búð til að kaupa smá nauðsynjar en í leiðinni rákumst við á annan veitingastað og skelltum okkur inn á hann. Þetta er reyndar í fyrsta sinn á minni ævi sem ég borða ís með hnífi og gafli en myndir tala málinu hér eftir.