Í morgun átti að vera skoðunarferð fram til hádegis en í gærkvöldi ákváðum við að nú væri kominn tími til að slaka á og taka rólega daga hér í Hoi An. Ég bað gestamóttökuna um að láta vita að við ætluðum ekki í ferðina en þegar við komum á hótelið voru skilaboð um að fara ætti korter í sjö af stað. Skilaboðin voru móttekin og við ákváðum því að „sofa út“. Við vöknuðum á okkar vanalega tíma rétt fyrir sjö og þá var farið að lesa hvað var að gerast í netheimum sem og að halda áfram með að gefa ykkur sem ekki eru hér stödd smá fróðleik um hvað er að gerast hjá okkur. Hálf níu hringir síminn og ég spurður á lélegri ensku hvort við værum ekki að koma. Eftir smá útskýringar á einföldustu ensku sem ég fann í mínum fórum gerði maðurinn sér grein fyrir því að við værum ekki að koma með þeim heldur værum við að fara í morgunmat og nota tímann fyrir okkur. Við fórum með þvottinn okkar fyrir hornið á hótelinu en Hóa, leiðsögumaðurinn okkar í Hue, gaf okkur góð ráð varðandi veruna okkar hér og eitt af því var að láta ekki þvo af sér á hótelinu. Það var mikil gleði hjá konunni sem við völdum til starfans og lofaði hún þvottinum tilbúnum kl. 17.
Við fórum síðan að skoða bæjarlífið í þessum litla bæ sem reyndar var aðalbækistöð fyrir kóreanska og Suður-víetnama í Víetnam stríðinu. Eftir göngu milli fjölda skraddara, matarmarkað og annarra verslana var þörf á að kæla okkur niður enda 32°c hiti hér um slóðir. Á veitingastaðnum taldi Áslaug næsta víst að rotta væri að spóka sig um staðinn en ég held að þetta hafi bara verið eitthvað annað nagdýr sem sauðmeinlaust væri.
Hóa vinur okkar hafði sagt að ef við vildum láta sauma á okkur fatnað ættum við að fara í lítið fjölskyldufyrirtæki sem héti Two Ladies. Skyndilega tókum við eftir því að við stóðum fyrir utan búðina og því var ekki annað hægt en að líta inn. Við eigum að mæta aftur í fyrramálið til mátunar og svo fáum við afhentan nýjan fatnað síðdegis á morgun.
Eftir það héldum við á hótelið með viðeigandi heimsóknum á krár og matsölustaði til að halda orkunni gangandi enda hitinn ekkert að gefa sig. Þegar á hótelið kom fórum við í laugina og nutum þess að slappa af í lauginni og á bakkanum spjallandi við tjalla sem fór á kostum.
Boðið var upp á Víetnamíska matarkynningu í hótelgarðinum sem ég skellti mér í. Við fengum síðan þá flugu í höfuðið að skella okkur Spaið á hótelinu. Áslaug í hand- og delux fótsnyrtingu en ég í heilnudd þar sem tveir nuddarar hömuðustu á kallinum í 60 mínútur. Þvílíkt og annað eins fyrir 5.300 kr. fyrir okkur bæði. Næsta vers var að fara út að borða og fara á kvöldmarkað áður en allur þvotturinn var sóttur en hann hljóðaði upp á fimm kíló.
0 Comments