Ekki var langt á milli ferða hjá mér að þessu sinni. Föstudagurinn 29. október er runinnn upp og næsta flug var til Bucharest í Rúmeníu. Reyndar var ekki í boði að fara í beinu flugi heldur í gegnum Amsterdam. Það var ljóst að tæpt yrði á milli fluga hjá mér en aðeins voru 50 mínútur sem mér var sagt af Icelandair að væri innan tímamarka á þeim flugvelli. 

Því var ekkert annað en að vona það besta en að sjálfsögðu varð seinkun á brottför sem nam 45 mínútum. Það var því ekki um annað að ræða en að taka þessu með æðruleysi og láta tíma ráðast hvort ég myndi eyða næstu nótt í Amsterdam eða á leiðarenda. Þar sem ég sat svo aftarlega í flugvélinni að ég gat næstum verið í næstu flugvél á eftir fékk ég að færa mig í fremsta sætið á Saga rétt fyrir lendingu. Það er ekki að  liðlegheitunum að spyrja hjá þessu flugfélagi. Eftir að lent var 45 mínútum eftir áætlun þá tók við önnur bið þar sem flugvél var í stæðinu sem okkar vél átti að fara í. Það voru fleiri en ég sem voru í tímaþröng því það voru tvær konur sem álíka var komið fyrir. Við vorum því þrjú sem rukum af stað eins og andskotinn væri á eftir okkur til að freysta þess að ná áframhaldandi flugi. Að sjálfsögu átti ég eftir að fara í gegnum vegabréfaskoðun og þar voru biðraðir dauðans. Ég hafði fengið SMS frá KLM flugfélaginu um hvaða hlið vélin færi frá og þegar ég kom þangað var allt lokað og læst en flugvél á rananum. Sem sagt að nú leit málið ekki vel út. Við nánari könnun kom í ljós að búið var að færa brottfararhliðið sem þýddi bara eitt. Enn frekari hlaup. Ég var orðinn að másandi fýsibelg þegar ég kom loksins á hið endanlega hlið. Þar stóð flugvélin um það bil tilbúin til brottfarar. Það eina sem vantaði var blásandi fýsibelgurinn. Sem betur fer varð seinkun á brottför þessa vélar eins og minni en það mun hafa verið sökum þoku á flugvellinum. Á hlaupunum fékk ég SMS frá Frode Skarstein félaga mínum frá Bergen en hann og Jannik kona hans komust ekki til Amsterdam þar sem flugið þeirra var fellt niður. Flugið var tíðindalaust en þegar til Bucharest var komið var enn frekari ferðalag framundan þar sem endastöðin var hafnarborgin Constanza við Svartahaf. Maður stóð fyrir utan hliðið með skilti með mínu nafni og nú tók við þriggja tíma keyrsla. 

Það voru fjórtán tímar frá því að ég gekk út heima þar til ég komst á hótelherbergið við Svartahaf. Ekki var þó á döfinni að fara í rúmið þar sem hópurinn hafði safnast saman niðri í hótelinu þar sem setið var að snæðingi. Það var komið fram að miðnætti þegar ég loksins staulaðist í rúmið. Það verður reyndar að geta þess að meðal okkar voru hjón sem áttu brúðkaupsafmæli þennan dag og að sjálfsögðu fengu þau köku.