Þá er það fyrsti morgun í Bangkok sem á móðurmálinu heitir Krung Thep Maha Nakhon og þýðir „The Great City of Angels“. Heimamenn kalla hana einfaldlega Krung Thep.

Við vöknuðum óvenju snemma, á 24 hæð, þar sem tíma mismunur var að setja okkur út af laginu sem og langa flugið. Eftir morgunmat við sundlaugina skelltum við okkur í gönguferð til að kanna hvar við myndum geta fundið klæðskera en ég hafði ákveðið að fá mér jakkaföt.

Að vísu fórum við ekki alveg rétta leið því þegar við komum út á horn götunnar áttum við að beygja til vinstri en þess í stað klifruðum við upp stiga á göngubraut fyrir ofan götuna en þegar þangað kom fórum við til hægri sem leiddi okkur að öllum fínum verslunarmiðstöðvunum.

Ekki að það skipti miklu máli enda engar verslanir opnar svona snemma enda klukkan rétt um níu að morgni. Þegar við áttuðum okkur á því að við hefðum farið í ranga átt vorum við búin að ganga í tæpa tvo kílómetra þannig að þetta varð hin ágætasta morgunganga. Þá var snúið við og ákváðum við að ganga eins langt og við kæmumst til kl. 10 þegar allt opnaði.

Svo skemmtilega vildi til að á slaginu 10 stóðum við fyrir utan verslunarmiðstöð sem heitir Terminal 21 og þar var farið inn. Viti menn, þar fann ég klæðskera sem ég pantaði jakkaföt hjá og eiga þau að vera tilbúin áður en við förum héðan á mánudagsmorgun.

Dagurinn var að öðru leiti tekinn rólega framan af. Farið að borða og lagst við sundlaugina þar sem dormað var. Við áttum pantað í siglingu um kvöldið og ákáðum við að fara tímanlega á staðinn. Þegar í lobbýið var komið sagði dyravörðurinn okkur að allt væri stýflað af umferð og við ættum að fara með lestarkerfinu sem og við gerðum.

Gríðarlega einfalt kerfi og er ég dyraverðinum þakklátur að hafa sent okkur þessa leið. Við komumst loks á leiðarenda og ætla ég ekki að hafa mörg orð um matarsiglinguna annað en að sýna hana í myndum og að nefna hversu mikill hávaði var um borð enda átti einhver heimamaður afmæli og var honum skemmt með fimm „Lady Boy’s“.