Að fara til útlanda er farið að vera nokkuð algengt hjá okkur hjónum um þessar mundir og nú daginn eftir 19 ára brúðkaupsafmælið var haldið á vit katalóníubúa þegar við flugum til Barcelónu til að hitta Gullu systir og Gúnda. Þau gáfu mér í afmælisgjöf út að borða í Barcelónuborg og nú var komið að því að innheimta gjöfina. Á flugvellinum í Keflavík hittum við Hafstein Rósberg frænda minn sem einnig var á leið þangað. Það voru líka fleiri eins og Eiður Smári Guðjónsen sem ég loksins gat stokkið að og sagt honum frá því sem við hjónin lentum í 2011 á landamærum Zambíu og Zimbabwe þegar við komum í landamærastöðina. Á móti mér tók ungur svartur strákur í einkennisfötum og með eina strípu. Þegar hann hafði kíkt inn í vegabréfin hvarf hann á braut. Þá hugsagði ég að nú væru vandræði framundan. Eftir nokkra stund kom annar svartur landamæravörður, stór og mikill, en þessi var með fjórar strípur. Nú átti ég ekki von á góðu en hann réttir fram vegabréfin og segir: „Gudjonsen is the best football player in the world“. Ég fékk 15 $US afslátt af hverju visa inn í landið. 



Við lentum rétt rúmlega miðnætti, þá kominn 12. október, og komumst inn á hótel á einum og hálfum tíma frá lendingu. Við hjónin tókum okkur reyndar til og aðstoðuðum Ágústu Evu og Aron kærasta hennar við að bera handfarangurinn úr flugvélinni enda nóg fyrir þau að bera.

Þennan fyrsta dag okkar hjóna í Barcelona var ósköp notalegur þar sem við fórum í góðan göngutúr um nágrenni hótelsins en hafa skal í huga að nú var kominn þjóðhátíðardagur hjá þeim og skrúðgöngur í gangi. Í fyrstu héldum við að það væru mótmæli en þjónn á veitingastað sagði okkur hvað væri í gangi. Reyndar mátti greina að spenna var í loftinu og ekki laust við að fólk væri hálf hrætt. Þegar við sátum á veitingastaðnum komu upp einhverjar erjur rétt hjá og fólk fór þegar að hlaupa. Ramblan var rétt fyrir neðan okkur.




Eftir góðan dag fórum við á hótelið til að slaka á og bíða eftir dönunum sem lentu ekki fyrr en kl. 8 að staðartíma. Þá var ekkert annað eftir að gera þennan dag en að fá okkur að borða áður en safnað yrði kröftum fyrir næsta dag.