Næst síðasti dagur frísins er nú upprunninn. Morgunmaturinn er eflaust það sem þið bíðið eftir að fá fregnir af á þessu japanska stíls hóteli. Morgunmaturinn fékk 9,5 hjá mér eða nærri því fullt hús. Það eina sem vantaði upp á var að fá lax. Ég fékk loðnu svo eitthvað sé nú nefnt en hún vinnur ekki laxinn. Hinsvegar bætti sushi bakkinn þetta upp. Þessi dagur á að vera afslöppunardagur fyrir langt ferðalag heim. Ferðalag sem vissulega verður erfitt til hvíldar en það sem vegur upp á móti er að á hinum endanum er rúmið okkar heima, sturtan okkar og dótið sem hefur verið að bíða eftir okkur að ógleymdu avókadó trénu hennar Áslaugar sem hefur mikið verið rætt um hér úti. Held að hún sakni þess óskaplega. Nærri því eins og að um væri að ræða gæludýr. Ég fæ líka að heyra það stundum, ef ég rekst utan í laufblað, að ég sé að fara illa með tréð.
Eftir morgunmatinn skelltu hjónin sér í nudd. Frúin í andlitið, síðan neglur og fætur en ekki endilega í þessari röð svo öllum staðreyndum sé haldið rétt til haga. Ég hinsvegar tók þennan einfalda pakka. Sænska nuddpakkann í 90 mínútur. Ég held að ég ráði reynda ágætlega við að greiða fyrir slíkan nuddtíma þrátt fyrir að hann kosti 870 þúsund. Reyndar kemur síðan á þetta afsláttur vegna ánægju hótelsins að hafa okkur hjónin innandyra eða 50%. Síðan kemur gengismunurinn svo þetta leggst á einar 2.033 krónur auk álagningar vegna úttektar á peningum til að greiða þessi ósköp. Eðlilega eru engar myndir til af þessu enda leyndarmál hvað gerist í nuddklefanum. Ég held að ég sé nokkuð tilbúinn í langt ferðalag eftir svona nudd en ég verð að bæta við að þetta er það besta sem ég hef fengið í langan tíma. Engan misskilning hér!
Við fórum í langan göngutúr í dag þar sem meðal annars var notað tækifærið til að borða einhvern þann áhugaverðasta hádegismat í lengri tíma. Pretzel með mismunandi millibilsmeðlæti. Ótrúlega gott og fær 9,5 í einkunn.
Það þarf nú ekki margt til að gleðja mig annað en að komast nærri skipum og smella af þeim myndum. Það er ekki alltaf svo að aðkoman og útkoman sé eins og ég vil en stundum er einfaldlega ekki tækifærin betri. Þá er að smella af því sem hægt er. Engu að síður kannast ég við skipstegundirnar því annað skipið er sannarlega smíðað í Japan en dráttarbáturinn er nokkuð sýnilega upprunalegur þýskur eða hollenskur dráttarbátur. Gat ekki fundið nöfn þeirra þar sem Marine Traffic virðist ekki ganga hér.
Við gengum um götur og stræti en einn af áningastöðum dagsins var mikill turn þar sem hægt var að fara upp á 52 hæð og kíkja á barinn. Við létum ekki okkur vanta þangað enda útsýnið alveg með eindæmum. Við semsagt sátum og nutum útsýnis frá þyrlupalli hússins sem var einstakt. Hefðum gjarnan vilja vera þarna að kvöldlagi en þannig háttar til að við elskum að vera í okkar hreiðri þegar fer að myrkva og njóta þess að eiga stundir saman í ró og næði án ytri áreytis.
Við nutum þess að ganga um götur borgarinnar og njóta þess sem hún hefur upp á að bjóða í nágrenni hótelsins (svona fimm kílómetra radíus). Þar fórum við meðal annars á markað en áreiti var það mikið að við gáfumst upp á stöðugu klappi á axlirnar og „Something for you madame/sir“
Við gengum síðan fram á veitingastað sem í eina tíð var heima á Íslandi og hét Hard Rock Cafe. Okkur var boðið inn en við létum að því kveða að okkur þætti hávaðinn of mikill fyrir okkur. Þá var okkur sagt frá því að það væri búið að leysa það vandamál. Uppi væri fyrir þá sem vildu vera í lægri skalanum en niðri væri hefðbundinn staður þar sem enginn heyrir neitt í neinum. Við sem sagt borðuðum á endanum á þessum stað og þar sem við sátum var fullt af fólki á okkar aldri sem hreinlega vildi heyra hvort í öðrum og njóta góðrar tónlistar samhliða. Hefði þessi staður lifað lengur á Íslandi með slík sjónarmið?
Nú erum við komin í síðasta hótel náttstað í okkar ferð. Hér fyrir utan bylur regnið og vindurinn enda hefur brostið á hið leiðinlegasta veður. Ljósin blikka og þrumur og eldingar láta sannarlega í sér heyra. Skiptir okkur litlu máli því nú er að byrja á hvíldarprógramminu fyrir heimferðina.
0 Comments