Ég hef ekki skrifað neitt um þá þrjá daga. Þar má fyrst nefna að við eignuðust okkar sjöunda barnabarn þann 13. nóvember en það var falleg stelpa sem þá kom í heiminn. Hún er ekki bara sjöunda barnabarnið heldur sú þrettánda í okkar fjölskyldu. Er sem sagt sankölluð ömmu og afa barn því við eigum töluna 13 sem okkar happatölu. Það hefur verið yndislegt að geta fylgst með þessu öllu í gegnum Face time í raunmynd.
Dagarnir framundan voru sannkallaðir vinnudagar. Við hjónin vorum sótt á hótelið okkar á hádegi en reyndar tafðist það að fara af stað þar sem bílstjórinn vissi ekki hverja hann var að sækja. Við höfðum spurt en hann talaði enga ensku. Ferðalag okkar var í hafnarborgina Sri Racha sem í raun er borið fram sem Særækja.
Ferðin frá Bangkok tók tæpa tvo tíma og þegar við loks vorum því sem næst komin á hótelið byrjaði að rigna. Hinsvegar þegar við vorum komin upp á herbergi þá var komið algjört úrhelli svo að götur voru eins og fljót. Úr herberginu okkar á 19. hæð sáum við aðeins gráan rigningarvegg. Það er víst byrjað monsúnregntímabilið.
Hópurinn hittist kl. 17 á barnum þar sem við stjórnarmenn hittum fyrir þá ræðumenn næstu daga sem mættir voru. Nú hafði stytt upp og við blasti fallegt útsýni yfir höfnina.
Þriðjudagurinn var fyrri ráðstefnudagurinn, á vegum FISH platform, en ég var ráðstefnustjóri hennar. Hófst hún kl. 10 á dansatriðum á Thailenskan hátt okkur til skemmtunar. Ég gat því ekki byrjað á fundarstjórnun fyrr en 30 mínútum á eftir áætlun en tímann þurfti að nýta vel til að standast aðrar tímasetningar.
Á ráðstefnunni sem bar yfirskriftina „A fisher’s life, a fisher’s future, var fjallað um mikilvægi þess að þrjár samþykktir yrðu innleiddar. Þær eru svokallaða Höfðaborgarsamkomulag um öryggi fiskiskipa, STCW-f um menntun og þjálfun fiskimanna og ILO C188 um vinnuskilyrði fiskimanna. Þá var einnig rætt um ólöglegar fiskveiðar þar sem réttindi sjómanna og velferð væri algjörlega fyrir borð bornar.
Alls voru 21 ræðumaður á dagskránni þessa tvo daga sem voru hvaðan úr heiminum. Fulltrúi alþjóðasiglingamálastofnunarinnar flutti þar ræðu en í henni sagði hann frá árangri okkar íslendinga í öryggismálum sjómanna og værum við sannkölluð fyrirmynd á því hvernig með samhentu verklagi væri hægt að ná árangri í fækkun banaslysa á sjó.
Ráðstefnugestir fóru að heimsækja sjómannaskóla AMCOL (Asia Maritime Technical Collage) en þeir aðstoðuðu við að skipuleggja ráðstefnuna. Það var áhugavert að skoða skólann sem reynar er staðsettur nokkkuð inni í landi þar sem lóðir við sjóinn reyndust svo dýrar að ógjörningur var að koma sjómannafræðslunni þar fyrir. Það er ekkert örðuvísi heldur en hjá okkur því sjávarlóðir eru seldar hæstbjóðendum því allir vilja búa við sjóinn og því er sjómannafræðslan fæld þaðan í burtu.
Nú þegar þetta er skrifað erum við hjónin að hefja fyrsta áfanga okkar heimfarar en það er að flytja okkur á hótel á Suvarnabhumi flugvellinum í Bangkok. Við eigum fyrsta flugið okkar, af þremur, kl. 08 í fyrramálið. Áætlaður komtími heima verður rétt fyrir miðnætti annað kvöld. Áður en við héldum á brott frá Sirækja þá fengum við okkur göngutúr um hafnarsvæði minni fiskiskipanna. Þar mátti sjá íbúðarhús af ýmsum gerðum og eflaust hefðu einhverjum þótt þetta hin glæsilegustu húsnæðum.
Höfnin í Sirækja er ein stærsta innflutningshöfn af olíu fyrir landið sem og annan varning. Mikill fjöldi, bæða olíuflutningaskipa og annarra flutningaskipa láu á legufærum undan ströndinni.
Síðasti sólarhringurinn okkar var á flugvallarhótelinu Novotel sem ég verð að segja að er eitt allra flottasta flugvallarhótel sem við hjónin höfum gist á.
0 Comments