Áslaug spurði mig af hverju vekjaraklukkan hefði ekki hringt í morgun þegar við opnuðum augun. Ég sagði henni að hún ætti að hringa eftir eina mínútu eða kl hálf sjö. En viti menn hún hringdi heldur ekki þá því að sú hringing í símanum mínum er ekki virk á helgum. Við erum gjörsamlega búin að týna dögum í ferðinni og aðeins eitt markmið að hlakka til hverrar stundar og láta amstur lönd og leið.

Í dag var komið hið besta veður og brátt skyldi haldið á braut. Langur akstur var framundan eða sá lengsti samfelldi á einum degi í allri ferðinni. Áningastaðurinn var kvaddur korter yfir átta eftir áhugaverðan morgunverð. Að vísu pantaði ég mér egg og beikon sem ég og fékk. Því miður er ekki til fleirtöluorð um beikon og því fengum við öll eina sneið af beikoni með tveimur eggjum. Það var nú annað meðlæti með svo við gátum alls ekki kvartað. Þjónustan var mjög góð og allir vingjarnlegir. Enginn lúxus en gott samt.

Dagurinn í dag var í stuttu máli sagt keyrsla. Í hádeginu stoppuðum við í Grofontein en þar var farið í að koma upp birgðum af drykkjum af ýmsum gæðum og styrkleika. Það yrðu tveir til þrír dagar í nærstu verslunarferð. Svo skemmtilega vildi til að dætur Heddu voru einmitt á suðurleið á sama tíma ásamt ferðafélögum og hittumst við þar við mikla fagnaðarfundi. Þau voru að koma þaðan sem við erum að fara en öll ætlum við að hittast í Walvis Bay á gamlárskvöld þar sem við ætlum að kveðja árið saman.

Ekkert markvert var að gerast á okkar leið nema að njóta fegurðarinnar og glæsileika landsins. Eftir 558 km akstur sem fjórir bílstjórar önnuðust var komið í næturstaðinn RiverDance. Að vísu er ekki boðið upp á dans líkt og við þekkjum frá okkar kæru írum en margt annað er þó í boði.

Eftir að við vorum búin að koma okkur fyrir settumst við hjóninn hjá næstu nágrönnum okkar, Ellen og Úlfari, og fengum okkur fordrykk. Þar sem við sátum á veröndinni og virtum fyrir okkur Angóla sem er hinu megin árinnar sáum við tvær konum við þvotta . Eftir að dreginn hafði verið fram sjónauki gátum við séð að þær voru að þvo þvotta en þegar því lauk þvoðu þær einnig fötin sem þær stóðu í og síðan sjálfar sig. Að vísu hafði okkur verið bent á að á sandrifi skammt frá væri krókódíll að hvíla sig og höfðum við áhyggjur af ástandinu.

Hér er mikið af flugu og þegar þetta er skrifað erum við komin inn í okkar hús og sjáum allt morandi í flugu í ljósunum á veröndinni hjá okkur. Ég er búinn að úða undir sængunum hjá okkur sem og allt herbergið og salernið hjá okkur.

Nú er að sjá hvort morgundagurinn beri ekki ný ævintýri í skaut sér því hér ætlum við að vera í tvær nætur.