Þessi dagur 22 desember 2019 átti að vera afslöppun og engin keyrsla í dag. Við ákváðum þó að við skyldum hittast í morgunmat kl. 8 en sumir í hópnum höfðu ákveðið að fara í jóga og nudd. Við morgunverðarborðið var rætt um hvort við ættum ekki að fara í túr sem gististaðurinn bauð upp á. Þegar upplýst hvað væri í boði fórum við að draga í land með nuddið því okkur bauðst að fara í heimsókn í nálægt þorp undir leiðsögn.
Það urðu allir sammála um að breyta fyrri áætlunum enda var það lítið mál að hendi gestgjafa. Einn af starfsmönnum gististaðarins yrði leiðsögumaður og væri þetta um hálftíma gangur þangað. Eftir að Hedda hafði rætt við eigandan kom hún til mín og spurði hvort ég væri ekki tilbúinn að keyra undir leiðsögn leiðsögumanns. Að sjálfsögðu gerði ég það og við tók skemmtileg upplifun.
Leiðsögumaður okkar bjó í 45 mínútna gönguleið frá gististaðnum og gekk hún þessa leið á hverjum degi fram og til baka til vinnu. Hún byrjaði á að fara með okkur í kirkju enda sunnudagur. Söfnuðurinn var kristinn, Assebly of God, og voru þau að byggja nýja kirkju. Við vorum í nærri þrjú korter í messunni en þær taka um þrjá tíma. Lengd messunnar markaðist að því hversu margir mættu til messu en hver og einn tók til máls og sagði frá þeim gjörðum sem þau höfðu gert frá síðust messu. Megin þorrinn var sunginn og verð ég að segja að þessi messa var tignarlegri og mikilfenglegri heldur en þær messur sem haldnar eru í klukkutíma í þjóðkirkjunni okkar þar sem við sitjum og stöndum eftir fororði kirkjunnar sem presturinn segir okkur að gera. Þarna var ekkert pjátur né óþarfa glingur. Allir voru að kalla á guð sinn án skilyrða. Sumir í okkar hóp táruðust við þessa stuttu heimsókn í messuna hjá þessu fólki sem við munum lengi búa að. Það var afar ánægjulegt að gefa kirkjunni peninga síðan til nýbyggingarinnar.
Leiðsögumaðurinn okkar fór með okkur vítt og breytt um hverfið. Sýndi hún okkur hvar þau versluðu inn eða hvað væri þeirra heimaverslun. Þar var bæði bar sem væri opinn frá 11 til 22 en síðan hinum megin við götuna var staður sem opnaði frá 21 til 05 næsta dag. Við skoðuðum heilsugæsluna, skólann og barnaskólann í hverfinu hennar en ekkert af þessu var opið enda bæði sunnudagur og allir komnir í jólafrí. Hér búa bændur og þeir eru að rækta grænmeti og korn. Faðir leiðsögumannsins, sem var ein þrettán systkyna, var kennari í skóla í næsta hverfi. Hún sagði að fólk á þessu svæði væri hamingjusamt og lítið um glæpi enda væri lögreglustöð í hverfinu.
Eftir að ferð okkar lauk fórum við í hádegismat og þá voru einhver sem vildu fá nudd. Ég mætti á staðinn um tólf leitið og þá voru ferðafélagarnir farnir að panta sér hádegismat. Ég leit á listann og sá að í boði væri pizza með ananas og banönum. Faðir minn hefði nú fussað við slíku enda gat hann ekki borðað ananas eftir að hann og Óli Björns (síðar útgerðarmaður) voru saman á togara og komust yfir dós af slíkum unaði að aldrei yrði það gleði að neyta þessa ávaxtar. Svo voru það banarnir sem Áslaug mín getur ekki með nokkru móti borðað.
Það tók heila tvo tíma að elda þessa pítsu en ég verð að segja að biðin var vel þess virði. Það voru allir búnir að fá sinn mat og alltaf var ég upplýstur um að það tæki langan tíma að matreiða pítsuna enda væri hún algjörlega gerð frá grunni. Það verður erfitt að toppa hana þessa.
Eftir að dorma í sófa á veitingastaðnum var ákveðið að við skyldum fara í sólarlagsferð um ánna og skoða dýralífið þar sem helgaðist af flóðhestum, krókódílum og miklu fuglalífi.
Við áttum yndislega ferð um fljótið sem skilur að Angóla og Namibíu þar sem við horfðum á fólk ferðast á milli áreynslulaust enda eru engin landamæraeftirlit þar. Krakkar frá Angóla ganga til að mynda í namibíska skóla að sögn leiðsögumannsins okkarn enda tala þau sama tungumál beggja vegna árinnar.
Í túrum sáum við hin ýmsu dýr en það sem mestu máli skipti var að tekin var áning á leiðinni þar sem okkur og nærstöddum bát frá sama gististað voru veittar veitingar. Það var gert í Angóla þannig að við hjónin getum merkt við það land í okkar lista þótt við höfðum verið þar ólögleg á litlu sandrifi.
Við heimkonuna beið okkar kvöldmatur sem var Heik enda eru margir í hópnum vanir fiski og því kærkomið að breyta til frá kjötmáltíðum fyrri daga. Heikinn er að vísu ekki nærri eins góður og þorskur en við erum reyndar íslendingar sem vitum að hann sigraði okkar þorsk í mötuneytum skóla í Bandaríkjunum enda skipti verð meira máli en gæði þar á bæ.
0 Comments