Nú er þorláksmessa að ganga í garð og í þetta sinn verður hún frábrugðin þeim degi allt frá árinu 1991 þegar ég tók við Slysavarnaskóla sjómanna. Það er erfitt að vera að heiman þennan dag en allt er einhverntíman fyrst og svo er nú. Þegar mitt frábæra starfsfólk var að setja upp á fyrstu diskanna var kallinn í tómu tjóni. En hér kemur ferðasagan.
Við ákváðum að fara frá gististaðnum eigi síðar en kl. 10 svo við hefðum nægan tíma. En þegar við héldum af stað litum við á klukkuna og þá var hún einungis níu og við sáum að við höfðum nægan tíma en við áttum að mæta kl. 14 á ákveðin stað í Botswana.
Vertinn á Riverdance sem við gistum á hafði prentað ú kort fyrir okkur og hvatti okkur til að fara í gegnum þjóðgarð á leið okkar til Botswana. Var það úr að við ákváðum að taka þá sérleið en hún kostaði 20 N$ á mann auk 10 N$ fyrir bílinn. Þetta var hinn besti túr lengi framan af þar sem við sáum hin ýmsu dýr. En svo kom babb í bátinn.
Í einni beygju fannst mér eitthvað einkennilegt við bílinn en ég var eimitt bílstjóri þá stundina. Við skiptumst reglulega á eða á umþ 120 km fersti eða eftir aðstæðum. Ég stoppaði með það sama og fór að skoða. Fann ég út að ballans stöngin á hægra framhjóli hafði brotnað. Nú voru góð ráð dýr þar sem við vorum á stað sem var eins fjarri mannabyggðum og hugsast gat miðað við allt ferðalag okkar til þessa.
Ekki var um annað að ræða en að slá á þráðinn til bílaleigunnar og eftir ráðleggingar frá þeim skyldum við halda áfram með minnkaðri ferð og forðast erfiða vegi. Ekki að það hafi ekki verið ljóst en við vildum ekki gera neitt nema að þeirra samráði. Ég hefði vel geta látið sjóða þetta saman þegar við komum inn til Botswana en það var ábyrgð á bílnum og þeir þurftu að bjarga málum. Ákveðið var að nýr bíll yrði sendur frá Windhoek og hingað til okkar í Nxmara Island lodge sem er um 100 km fjarlægð frá landamærum Namibíu og Botswana.
Það var allt annað en auðvelt ferðalag að keyra bílinn með brotna ballansstöng en hraðinn á óbundnu komst ekki upp fyrir 20 km og á malbiki 50. Malbikið í Botswana á þessu svæði er ekkert til að hrópa húrra yfir eða eins og Reykjavík í febrúar. Við náðum að koma upplýsingum til gististaðarins um að við værum í vandræðum og sem betur fer náðum við því áður en farið var úr namibísku símasambandi því við áttum eftir að komast að því að nýtt símafélag hafði tekið yfir fjarskiptum í Botswana en þeir voru ekki með neina samingna og því sambandslaust fyrir erlenda síma.
Loks sáum við, eftir langa og stranga keyrslu, bifreið merkt gististaðnum sem kom á móti okkur og höfðu þau haft af okkur áhyggjur. Þeirra jeppi snéri við á götunni og keyrði á undan okkur alla leið á bílastæðið þar sem bíllinn yrði geymdur fram á næsta dag. Það er von okkar að þá verði kominn nýr bíll fyrir okkur en hann lagði síðdegis af stað frá Windhoek.
Við vorum síðan ferjuð á bílum þeirra á gististaðinn en svæðið sem við fórum um er að öllu jöfnu á floti og því farið á bátum á staðinn. Nú hafa verið þurrkar og því allt þornað upp. Á því er nú bragabót því mikið hefur ringt í Angóla og einnig nokkuð í norður Namibíu þannig að hér eiga menn von á hækkun yfirborðsins á næstu dögum. Það voru þeir félagar Fish og System sem sáu um aksturinn á gististaðinn en þar var tekið vel á móti okkur.
Eftir að hafa komið okkur niður og fengið fyrsta glasið af G&T var ákeðið að fara í bátsferð um þetta svæði. Það var sannarlega skemmtilegur túr og mikið dýralíf. Myndirnar segja þá sögu en að vísu enduðum við túrinn á því að sigla yfir krókódíl en Fish var skipstjóri ferðarinnar.
Við fengum síðan í kvöldmat reykt svínakjöt og því sannarlega jólafílingur við kvöldverðaborðið. Þetta er einn skemmtilegasti staður sem við höfum gist á þar sem allt er gert til að hafa hlutina sem vinalegasta. Starfsfólkið sest niður og spjallar við gestina og einnig borða sumir þeirra með þeim. Við áttum skemmtilegar stundir með þessu fólki og lærðum margt og mikið um samfélagið hér á þessu svæði.
0 Comments