Föstudagurinn langi var nú runninn upp og má segja að hann hafi verið í lengra lagi hjá okkur. Við vöknuðum reglulega upp alla nóttina þegar Kókoshnetan kastaðist til og frá í vindhviðum sem gengu yfir víkina. Það hvein og söng í öllu en við vorum vöknuð klukkan sjö og þá klár í að hefja næsta legg siglingarinnar okkar. Við höfðum kvöldið áður fundið bæ sem okkur langaði til, rétt sunnan við Aþenu, sem heitir Glyfáda en samkvæmt leiðsögubókinni ættu þar að vera laust legustæði.
Ferðin gekk reyndar ágætlega þrátt fyrir sjógang um tíma en aldrei fór ganghraðinn niður fyrir 5 hnúta en nóg var af gusuganginum um tíma enda fór vindurinn upp í 6 gömul vindstig um stóran hluta leiðarinnar. Við komum inn til hafnarinnar og hófum að leita að leguplássi. Fundum loks eitt og ekki gekk nú sem best að koma bátnum í legufærin. Ekki besti dagur skipstjórans í þessum efnum. Eftir japl um juml hjá hjónunum tókst loks að koma hnetunni í legu.
Ekki höfðu hjónin komist sturtu í dágóðan tíma og ákvað ég að rölta upp bryggjunna til að kanna hvort slík þjónusta væri í boði meðan Áslaug ferskvatnaði hnetuna. Áður en ég komst á bryggjuendann sá ég að þar var þetta reysuleg hlið ekki ólíkt því sem við sjáum á smábátabryggjum víða um land þar sem búið er að setja víggirðingu utan um innganginn að bryggjunni. Nú var ljóst að við værum ekki í neinu almenningsstæði og hófst þá leit að þeim sem hér ráða ríkjum. Þegar þetta er skrifað átta tímum síðar hefur enginn fundist og við erum hér fastbundin enn enda ekkert annað bryggjupláss að finna í höfninni. Þar sem við þurftum að hafa lykil til að komast inn á svæðið var ljóst að annað okkar yrði að vera fyrir innan svo við læstumst ekki úti. Við fórum því í sitt hvoru lagi útfyrir til að verða okkur úti um viðurværi. Þá reyndi Áslaug að fara í sund, enda stór sundlaug við hlið hafnarinnar, en áður en svo langt komst að hún kæmist í búingsklefa var hún komin á sundlaugarbakka á keppnislaug sem einungis var fyrir sundiðkendur íþróttafélags.
Þegar búið er að vera um borð án þess að komast í sturtu er ekki laust við það að þörfin fyrir að komast alla vega í hárþvott sé orðin mikil. Því var ekkert annað að gera en að nota ískalda sturtuna um borð til hárþvotta.
Við erum að fá afleysarana okkar hingað um fjögurleitið á morgun en þá ætlum við að skella okkur á hótel sem við fundum á góðum prís eina nótt áður en haldið verður heim á leið rjóð í kinnum og hamingjusöm. Morgundaguinn hefur reyndar ekki enn litið dagsins ljós og sjáum við hvað setur þegar dagur rís.
0 Comments