Áður en við fórum út hafði ég verið tengdur inn í samskipti Ed’s við Georgíu og sagði hann mér að hún ynni í Groceri store við höfnina. Ég fann enga slíka og vissi hreinlega ekki hvert ég ætti að leita. Hann hafði gefið mér lýsingu en þar var engin slík verslun. Um morguninn ákvað ég að setja vélina í gang því við Áslaug ætluðum að leggja af stað í siglingu enda var veður með eindæmum en spáin ekkert sérstök framundan næstu daga. Það var því annað hvort nú eða ekki fyrst við komumst ekki í gær. En viti menn – vélin fór ekki í gang. Það var því ekkert annað að gera en að vita hvort ekki væri verkstæði sem gæti litið á vélina og fannst mér startarinn vera grunsamlegur. Fórum við því í skútubúðina þar sem frúin á staðnum vísaði okkur á verkstæði sem væri með reyndar Yanmar en ekki Volvo. Sá hafði verið í bænum í gær.

Við þangað en allt lokað en sem betur fer var símanúmer og eftir smá japl fékk ég samband við mann sem talaði ensku og var hann kominn um borð eftir 10 mínútur. Eftir stutta athugun kom í ljós að rafgeymirinn fyrir aðalvélina var við það að springa og hafði þegar rifnað.

Fyrir lá að finna nýja rafgeymi og fór sérfræðingurinn af stað. Það tók hann ekki nema sjö tíma að koma með rafgeyminn til baka og tengja hann. Það hafði verið samið um verð fyrir rafgeyminn, sem kom frá Aþenu, ásamt vinunni sem við urðum að sætta okkur við. Meðan ég var að bíða eftir sérfræðinginum fékk ég skilaboð frá Ed þar sem hann sendi mér heimilisfangið í vinnunni hjá Georgíu. Viti menn var það þá ekki konan í skútubúðinni og ég stormaði þangað enn á ný. Þegar þangað kom sat við hlið hennar okkar næsti nágranni úr skútulegunni í höfninni sem ég hafði reyndar ekki tekið eftir fyrr um morguninn en Áslaug sagði að ég væri ómannglöggur með eindæmum. Þegar Georgía komst að því að ég væri frá Íslandi spurði hún hvort það hefði ekki verið konan mín sem fékk íslenska fánann í gær og jánkaði ég því.

Nú var komið aftur að sérfræðingnum með rafgeyminn. Ég bað hann að sjálfsögðu um nótu og var það ekkert mál. Hann kæmi til baka eftir líklegast klukkutími en það var því miður ekki ásættanlegt hjónunum og útbjó hann þá reikning í snatri á línustrikað blað úr stílabókinni og hafði mörg orð um skattmann og hans líka.

Vélin var sett í gang og landfestum sleppt kl. 16:30 og út úr höfninni var haldið. Sett var upp fokkan sem hélt okkur á fimm hnúta ferð enda gott lens þá leið sem við vorum búin að ákveða að fara en þangað komum við rétt um kl. 18. Ekki var þrautarlaust að fara þennan fyrsta hluta siglingarinnar enda hefur Áslaug ekki alveg alist upp í siglingum á seglskútum. Eflaust má líka segja að þegar eiginmaðurinn er með hlutina á hreinu hvað er að gerast og hefur ekki alveg sagt nákvæmlega hvað næst gerist olli það smá erfiðleikum milli hjónanna.

Það sem mér var eiginlegt var ekki alveg það sama í huga Áslaugar. En þrátt fyrir smá byrjunarannmarka leystist þetta allt mjög vel eftir smá yfirferð á því hvernig best væri að hlutirnir gengju fyrir sig fór þetta allt að ganga betur. Það var við höfða sem heitir Cape Soúnion. Þar lögðumst við fyrir akkeri og elduðum okkur kvöldmat sem var virkilega góður. Við fórum snemma í rúmið eða um hálf ellefu. Svona rétt til þess að geta þá held ég að öllum þeim sem þekkja okkur sé löngu orðið ljóst að megin þorri allra ljósmynda úr þessari ferð eru teknar af Áslaugu.

Við vorum þá orðin dauðþreytt því það tekur á að bíða eftir viðgerðarmanni lon og don.