Við sváfum vel síðustu nóttina að sinni um borð enda láum við í rólegri og með öllu hreyfingalausri höfn þessa nótt. Eftir morgunmatinn hófst enn og aftur leit að þeim sem réðu ríkjum á hafnarsvæðinu en eftir nokkra leit kom í ljós að þeir mæta hvorki á laugar- né sunnudögum til vinnu og því var ljóst að enga lykla yrði hægt að fá að bryggjunni. Eftir að hafa rætt við siglingaklúbb í nágrenninu kom einnig í ljós að þar væri ekkert laust pláss heldur og því ekki um annað að ræða en að liggja þarna áfram.

Þá var ekkert annað að gera en að blása upp léttabátinn og róa honum að næstu bryggju sem var ólæst og fara þannig á milli til að opna hliðið.

Nú komust hjónin saman í bæinn og brátt mættu Steve og Andrew eftir stutt flug frá London. Farið var því um borð og farið yfir viðburði síðustu daga áður en við hjónin fórum á eitt sérkennilegasta hótel sem við höfum gist á. Læt myndirnar segja þá sögu. Það var ekki laust við það að við hefðum saknað þess að komast ekki í sturtu í nokkra daga.

Við fjögur fórum síðan út að borða um kvöldið eftir smá verslunarferð og var kært kvatt áður en þeir héldu um borð og við upp á hótel.