Eftir spjall við næstu nágranna í gærkvöldi ákvað ég að heimsækja aftur strandgæslunna og fá eitthvað í hendurnar um að við gætum siglt þrátt fyrir að mér var sagt að slíkt þyrfti ekki. Að vísu var nóttin ekki alveg sú besta hjá okkur hjónum því upp úr fjögur fór aðvörun á sólarsellunni að gera vart við sig en líklegast má rekja það til þess að við vorum með síma í hleðslu um nóttina. Verður ekki endurtekið í nótt.
Eftir morgunmat arkaði ég glaður í bragði á skrifstofuna hjá Strandgæslunni. Þegar ég kom inn á skrifstofuna var eins og ég væri á allt öðrum stað en ég var á í gær. Það var ekki einu sinni sama fólkið nema ein stelpa í móttökunni. Nú voru allir einkennisklæddir sem ég hitti og ég er þess viss að hópurinn sem var í gær var bara fenginn til að sitja þarna en höfðu enga vitneskju um hvað þau væru að gera. Nú var allt annar tónn í liðinu. Eftir þriggja tíma stapp gekk ég loksins út með siglingaleyfi á grísku hafsvæði. Það sem hægt var að tefja tímann og véfengja alla pappíra sem fyrir manninn sem afgreiddi mig voru lagðir var með ólíkindum. Hann las atvinnuskírteinið mitt að minnsta kosti fimm sinnum og loks sagði hann að það stæði hvergi í því að ég væri með réttindi á seglskip. Þá var mér nóg boðið og benti honum á að í því stæði Master unlimited. Hálftíma síðar fór hann þó með skírteinið mitt á næsta borð og ræddi þar við annan með fleiri strípur. Ég þurfti ekki að skilja mikið til að átta mig á því sem þar var rætt en yfirmaðurinn sagði honum að þetta væri skírteini í samræmi við Manilla breytingar á STCW og ekkert meira var rætt um mína pappíra. Ég held ég láti hér staðar numið enda er ég búinn að hafa nokkuð margar klukkustundir til að ná úr mér pirringnum. Og þó… meðan ég var að bíða kom að mér starfsmaður og spurði hvaðan ég væri. Ég sagðist vera frá Íslandi þá sagði hann strax: „Gudjonsen! “. Hann átti ekki orð yfir hversu marga góða fótboltakappa við áttum. Meðan á öllu þessu stóð beið Áslaug niðri í snekkjunni læst úti enda lyklarnir í mínum vasa.
Þegar þetta allt var yfirstaðið skelltum við okkur út í búð til að kaupa okkur mat til sjóferðar en þegar við komum um borð ákváðum við að leggjast í þrif á bátnum bæði að innan og utan enda nokkuð liðið á daginn. Vatnstankurinn var fylltur og við erum þegar farin að finna fyrir því hversu mikið Kókoshnetan hefur þyngst við þetta og er ekki eins kvik í hreyfingum. Tankurinn var eflaust því sem næst tómur.
Ég ætla ekki að gleyma því að Áslaug fékk stærri þjóðfána hjá „vini sínum“ í skútubúðinni og nú er hún ánægð með fána sem sést mjög vel.
Farið verður snemma í fyrramálið af stað. Nú sitjum við og njótum þess að vera í hreinum bát.
Ps.smá viðbót. Við skelltum okkur í bæinn til að fá okkur að borða á áhugaverðum veitingastað. Hann fundum við og það var ekki nóg að maturinn og veitingastaðurinn væru góður heldur var öllum sem reyktu vísað út þegar við gengum inn og meðan við vorum þar inni fóru allir gestir út til að reykja. Veitingakonan spurði reyndar Áslaugu hvort það væri okkur á móti skapi að reykt væri inni og Áslaug sagði það í lagi en gaf það í skin að hún væri ekki hrifin. Engu að síður fóru allir út þann tíma sem við vorum þar en um leið og við gengum út var farið að setja öskubakka á borðin. Hér er bókstaflega allsstaðar reykt hvort heldur er í verslunum eða veitingastöðum. En það findnasta var þó að þegar við komum að staðnum tók á móti okkur maður sem spurði hvort við töluðum þýsku. Svo var að sjálfsögðu ekki en þegar við fórum sat hann enn við sama heygarðshornið og hélt áfram að reyna að fá okkur til að tala við sig þýsku en án nokkurs árangurs.
0 Comments