Mér hefur liðið eins og ungabarni í dag enda ekki nema von þegar dagurinn er gerður upp. Við fórum framúr kl. 8 til að fara í morgunmat ef morgunmat skyldi kalla. Einhvert það undarlegasta morgunverðarhlaðborð sem ég hef nokkru sinni augum litið. Á miklu meiri samleið með hádegismat en morgunmat. Lítið spennandi en hér er mikið af japönum sem hótelið gista og gæti það verið skýringin á þessu sérstaka matseðli. Eftir morgunmatinn fórum við á ströndina og leigðum okkur sólbekki. Fljótlega eftir að ég lagðist á minn bekk var ég einfaldlega sofnaður. Ekki varði það lengi enda sá Áslaug til þess að ég mókti frekar en svaf. Hún vildi halda uppi samræðum en ég var ekki alveg á þeim nótunum.
Loksins reif ég af mér slenið og heimsótti vin minn frá gærdeginum til að fara út að sigla. Hann varð afar glaður að sjá mig aftur og sagði að sinn íslenski vinur og Laser siglari væri alltaf velkominn. Fyrir hálfa milljón fékk ég bátinn eins og í gær en nú sagði hann við mig að ég mætti skila honum á morgun.
Tók því nokkuð langan túr og það sem kom mér mest á óvart var að sjórinn var þakinn alskonar plasti hvar sem ég sigldi. Að siglingunni lokinni átti ég eftir að lenda í nokkrum vandræðum en það var að komast aftur á sólbekkinn. Sólbekkirnir okkar voru staðsettir í um 20 metra fjarlægt frá stöndinni en voru reyndar í neðstu röð. Sökum hita var sandurinn orðinn brennandi heitum og brann ég á iljunum við að komast þangað. Raunirnar voru reyndar ekki alveg búnar þar sem við þurftum að koma okkur í hádegismat í siglingaklúbbnum sem við fengum bekkina hjá. Það voru aðrir 20 metrar og lítið um skugga á leiðinni. Allt hafðist þetta þó.
Eftir hádegismatinn ákváðum við að fara í hótelsundlaugina og taka þar smá sundsprett. Nauðsynlegt til að kæla brunnu iljarnar en síðan skrönglaðist ég upp á sólbekk og sofnaði enn á ný. Ég var eiginlega eins og ungabarn í dag, alltaf að sofna og það úti undir berum himni.Hér handan í flóanum er mikil eyja sem kallast Vinpearl eyja. Þar hefur víetnamískur milljarðarmæringur reist skemmtigarð en til að komast þangað er hægt að fara með kláf rétt rúma þrjá kílómetra (3.320 m) sem mun vera sá lengsti í heiminum. Kláfarnir ferðast í 115 metra hæð frá fastalandinu yfir í eyjuna. Liz, ástralska vinkona okkar, fór með okkur í ferðina en hinar tvær treystu sér ekki. Tókum okkur smá skoðunarferð um eyjuna þar sem margt markvert var að sjá. Merkilegt þótti mér þó að sjá listan yfir drykkina á barnum, sem við heimsóttum, þar sem meinleg villa var í tegundarheiti á einni áfengistegundinni. Lét ég mér því bara nægja að fá mér einn lítinn bjór og vera ekkert að flækja málin. Við gátum að eins staldrað stutt við þar sem við vorum við að fara út að borða með þeim áströlsku í siglingaklúbbnum. Á leiðinni í land fórum við yfir flutningaskip sem lá í höfninni þar sem sjá mátti sjá smá ljóstýru á bátadekkinu þar sem áhöfnin sat að snæðingi. Ekki flókið hjá þeim. Læt ég nú bara myndirnar segja söguna.
1 Comments
Sigurbjörn
Var ekki prófað eitthvað af þessum rennibrautum.??
Svakalegur skemmtigarður og þessir kláfar. Alveg magnað.