Það er svo að stundum verða eftir myndir frá fyrri degi og í dag er engin undantekning. Við vorum að fara út að borða þegar ég lauk skrifum í gær og því hefst frásögn dagsins á kvöldverðinum í gærkvöldi. Þar varð steikarstaður fyrir valinu og við nutum góðra nautasteika með ljúfu rauðvíni áður en haldið var á hótelið og gengið til náða snemma til að vera vel úthvíld fyrir morgundaginn.

Við vorum sótt á hótelið klukkan 8:30 en Alex sem stótti okkur sagðist reyndar vera fyrir utan hótelið en þegar við fórum út var enginn þar. Í ljós kom að hann var fyrir framan allt annað hótel en við vorum á. Það tókst að leysa úr þeim mistökum og loks var lagt af stað til Novikontas. Höfðinglegar móttökur voru hjá þeim vinum okkar þar og byrjuðum við daginn á að setjast í betri stofuna og fara yfir hvað við vildum gera sem og hvað við Dmitrijs þyrftum að gera (pappíraundirskriftir).

Næst var farið í að skoða skólann og fræðast um starfsemi hans. Alex fór með okkur um húsnæðið og sýndi okkur aðstöðuna. Það var mjög áhugavert og sérstaklega vakti það athygli okkar að þau hafa komið sér upp mjög góðri kennsluaðstöðu í háspennu sem og vegna vinnu úr hæð.

Áfram var haldið og sérstök athygli var vakin á veggspjaldi sem hékk í aðstöðu nemenda þar sem sagt var frá 72. ráðstefnu IASST.

Næst var farið að skoða útisvæðið en við hlið skólahússins eru gámar sem notaðir eru til slökkviæfinga auk þess sem þeir eru einnig notaðir í tengslum við þjálfun starfsmanna sem vinna við vindmyllur og æfingasvæði fyrir þjálfun um vinnu í hæð.

Við áttum eftir að skoða fleiri skólastofur og þar á meðal stofu sem notuð er í skyndihjálparkennslu en yfir standa breytingar á henni enda var hún nýlega tekin í notkun. Þá fengum við að sjá meðal annars eitt af þeim prófum sem lögð eru fyrir nemendur á grunnnámskeiðum.

Ekki var dagurinn alveg búinn því við þurftum að taka stöðuna „Þröngt mega sáttir við sitja“ enda barnastóll í bílnum hjá Alex sem skutlaði okkur til baka á hótelið. Eftir að hafa skipt um föt var sest niður á kaffibar við hliðina á hótelinu og farið yfir upplifun dagsins.