Frásögn dagsins í dag er ekkert frábrugðinn gærdeginum að segja frá kvöldmatnum frá kvöldinu áður. Við fengum okkur göngutúr og fundum veitingastað nálægt hótelinu. Ekki gátum við öll klárað matinn okkar og því var fenginn „hundapoki“ og reynt að koma honum fyrir hjá hungruðum en enga slíka var þá að finna í kringum hótelið líkt og fyrri kvöld og eflaust má rekja það til kulda kvöldsins.
Við vorum sótt á hótelið klukkan 8:30 og haldið í skólann. Eins og fyrri daga var byrjað á morgunkaffi þar sem farið var yfir dagskrá dagsins. Fyrir hádegi myndum við skoða hafnaraðstöðu þeirra og eftir hádegið fylgjast með slökkviæfingu.
Loks mætti Alex „stóri“ Chropenko á svæðið en hann er eigandi skólans. Við áttum skemmtilega stund saman og til viðbótar þá koma Alexandr Nadezhnikovs (áður hjá skólanum LAPA í Ríga) en hann var góður félagi meðal IASST eins og allir hjá Novikontas. Það var mikið rætt og skrafað.
Nú var ferðinni heitið á æfingasvæðið en áður en þangað var farið þurfti eitt okkar að fara aftur á hótelið þar sem vegabréf vantað en fyrir tilviljun voru tvö með það á sér. Ekki hafði verið haft orð á því við okkur að þess þyrfti til að komast inn á hafnarsvæðið.
Alex Malinowski sótti okkur um morguninn en hann var síðan með okkur allan daginn. Alex kom einmitt til okkar í Slysavarnaskólanum fyrir nokkrum árum í tengslum við Erasmus+ verkefni. Þetta er smá flókið þar sem við erum búin að vera með litla og stóra Alex, Alex fyrrum LAPA og svo þessum Alex.
Skólinn fékk nýlega afnot af ísbrjót sem stjórnvöld í Lettlandi keyptu og Alex Malinowski fékk þá hugmynd eftir að hafa séð okkar skip að fara með eins mikið af kennslu um borð í skipið og mögulegt væri á grunnámskeiðum. Þar fer einnig fram fræðsla fyrir verðandi háseta og aðstoðarmenn í vél. Við fræddumst um aðstöðu þeirra við bryggjuna en Novikontas hefur nýlega hafið kennslu fyrir vindmyllur og því komið sér upp viðeigandi búnaði.
Eftir hádegismatinn fylgdumst við með æfingu grunnnámskeiðs í slökkviæfingum. Þegar þær æfingar voru að hefjast snéri einn nemandinn sér að mér og ávarpaði mig á íslensku. Ég varð alveg forviða og spurði hvað hún væri að gera hér. Þá kom í ljós að hún var ekki íslensk (talaði flotta íslensku en sagðist ekki geta talað mikið) og að hún væri að fara í vinnu hjá Sölku á Húsavík í sumar.
Eftir æfinguna fórum við aftur á hótelið til að taka smá pásu en okkur hafði verið boðið út að borða um kvöldið þar sem við nutum þvílíkra veiga í boði skólans ásamt Alex „stóra“, „litla“ og Dmitrijs. Ekki voru teknar myndir við það tækifæri og því lýkur frásögn dagsins á mynda þaðan.
0 Comments