Í gærkvöldi var okkur boðið í kvöldmat, eins og sagt var frá í gær, heima hjá Dmitrijs og Oxönu konu hans. Alex litli sótti okkur og áttum við yndislegt kvöld með þeim ásamt tveimur börnum þeirra sem ég hef marg oft heyrt af en ekki séð fyrr en nú. Við vorum komin til baka á hótelið um 11 leitið og því ekki til setunnar boðið annað en að koma sér í rúmið.
Síðasti dagurinn hjá þeim í Novikontas var nú hafinn en við vorum að vanda sótt klukkan 8:30 en nú fórum við bara strákarnir enda var aðeins sjóæfing framundan í kulda niðri á höfn. Fyrst var farið í kaffispjallið og síðan farið í rútu með nemendum og kennurum niður á höfn. Þar fylgdumst við með grunnnámskeiðinu á sjóæfingu sem og æfingu í að halda æfingu um borð í skipi sem eiginlega var til þess fallin að sýna þeim hvernig æfingar færu fram.
Að henni lokinni var okkur keyrt upp í skóla þar sem við sátum og ræddum málin yfir kaffibolla og vatni (enda hef ég ekki drukkið kaffi í 25 ár) áður en haldið skyldi í síðustu skoðunarferðina sem skipulögð hafði verið fyrir okkur. Áður en við lögðum af stað var tekin mynd af okkur strákunum en síðan hittum við formann sjómannafélags Litháens, Igor, þar sem við áttum spjall saman um baráttumál sjómanna.
Nú var ferðinni heitið á hótelið að sækja Sillu og síðan keyrt til Jurmala þar sem við áttum meiri háttar hádegismat ásamt skoðunarferð um svæðið sem er aðal útiverustaður Moskvumilla sem og íbúa Riga.
Það var ekki auðvelt að kveðjast að ferðinni lokinni en ferð sem þessi verður seint toppuð enda höfum við verið upptekin frá degi eitt í frábærri umhyggju allra þeirra starfsmanna Novikontas sem fengin voru til að annast okkur þann tíma sem við dvöldum meðal þeirra. Það eru ekki til nægjanlega góð orð til að þakka þessa frábæru viku svo takk fyrir okkur verður látið fall hér. Við höldum héðan með mikla þekkingu á starfsemi þeirra og að ógleymdum vinskap.
0 Comments