Allt á þessi ferð rætur að rekja frá árinu 2017 þegar Slysavarnaskóli sjómanna fékk úthlutuðum styrk úr Erasmus+ styrkjaáætlun ESB til mennta- og starfsþjálfunnar. Þegar hafa verið farnar ferðir til Finnlands og Álandseyja í þessu verkefni en síðasti hluti þess er einmitt sú ferð sem hófst á höfuðborgarsvæðinu laugardaginn 16. mars 2019.

Við erum þrjú sem förum þessa ferð til að heimsækja skólann Novikontas í Riga, ég, Sigríður Tómasdóttir (Silla) og Jón Snæbjörnsson. Við vorum mætt í Leifsstöð um sjö leitið um kvöldið en það var þó reynt að koma okkur út á flugvöll fyrr. Þar sem ekkert okkar átti þann möguleika á að fá far út á flugvöll varð úr að ég pantaði leigubíl fyrir okkur og átti hann að sækja Jón (sem er búsettur fjærst) klukkan hálf sex síðdegis. Hinsvegar vaknaði ég við símhringingu klukka hálf sex um morguninn þegar leigubifreiðastjóri tilkynnti að hún væri fyrir utan hús á Seltjarnanesi. Ég í svefnrofanum lét hana vita að ég hefði ekki verið að panta leigubíl enda byggi ég þar í ofanálag úti á Álftanesi. Það var ekki fyrr en ég var búinn að kveðja hana að ég áttaði mig á því að klukkan var hálf sex að morgni og því hefði eitthvað klúðrast. Reyndi ég að hringja til baka í bílstjórann en það gekk ekki en þegar ég náði sambandi við skiptiborð Hreyfils sá sú sem svaraði að mistök höfðu verið gerð.

Nú vorum við sem sagt mætt úr á flugvöll rétt fyrir klukkan sjö á laugardagskvöldi og nú skyldi fengið sér eitthvað í gogginn áður en lagt væri af stað með Wizz Air til Riga. Þegar inn var komið úr öryggisleitinni blasti við okkur sá dapri raunveruleiki að allir veitingastaðir voru lokaðir að einum undanskyldum (þökk sé rekstraraðilum þess). Ekki var heldur hægt að skella sér á barinn því þar var einnig lokað. Flugvöllurinn var sem sagt dauður í orðsins fyllstu merkingu þrátt fyrir að enn væru fjögur flug eftir að fara í loftið.

Á endanum var loks komið að því að skella sér um borð í flugvélina og búist við þar myndi þreyta taka völdin og við renna inn í draumaheima. Sú varð raunin ekki því þrátt fyrir þriggja og hálfs tíma flugs leið tíminn ótrúlega hratt og skemmtilegar umræður urðu bæði milli okkar ferðafélaganna, við flugþjón og farþega í næstu sætum. Jón komst að því að sá sem sat hinum megin við ganginn væri vélstjóri á tankskipum og að hann hefði meðal annars tekið sína þjálfun í Novikontas. Heimurinn er ekki flókinn. Við lendingu mátti sjá að búist var við einhverjum farþega sem lögreglan vildi hafa tal af því áður en nokkrum var hleypt í land fóru lögreglumenn yfir farþegalistann svo sjáanlegt var úr okkar sætaröð sem var númer 6. Við landganginn stóðu lögregluþjónar og þegar komið var inn í stöðina var einnig lögregla þar og þá sá ég spjald með mynd af manni sem þeir voru eflaust að leita að.

Þegar út úr flugstöðinn var komið, eftir lendingu, stóð maður með spjaldtölvu með mínu nafni og var því ljóst að hér var leigubílstjórinn okkar mættur og tilbúinn að koma okkur á Wellton Centrum Spa Hotel í miðbæ Riga. Hann var afar fróðlegur en fór ekki um of því hann sá hversu þreytt við vorum enda klukkan að ganga fjögur á þeirra tíma en tveggja tíma munur er á Reykjavík og Riga. Í lobbyinu var tekið vel á móti okkur enda var vitað af komu okkar á þessum tíma. Allt klárt og meðal annars uppfærsla á herbergju. Þau eru reyndar ekki stór en ég hef verið að velta því fyrir mér hvernig eins manns herbergin líti út miðað við mitt herbergi.