Flugið til London var leikur einn og við hjónin höfðum ákveðið að reyna að nýta allar þær stundir sem framundan væru á flugi til að ná okkur í hvíld.
Þetta reyndist alveg snilldar áætlun hjá okkur því næsti sólarhringur fór í algjört rugl. Við vissum vart hvort var dagur eða nótt hvað þá hvort við værum að borða morgunmata, hádegismata eða kvöldmata.
Við fórum að dorma hér og þar en flugið frá London tók um sex tíma en þá tók við átta tíma bið í Doha. Það var ekki nein smá flugvél, frá flugfélaginu Qatar, sem flutti okkur þessa leið því við vorum í Airbus 388 sem er tveggja hæða og sátum við í röð 77 á neðri hæðinni.
Við vorum búin að ákveða að fá okkur gistingu á flugvellinum en sama hvað við leituðum og hvaða aðstoð við fengum við það þá einfaldlega fannst hún ekki.
Þá ákváðum við að skella okkur inn á lounge á flugvellinum en þegar þangað kom var okkur sagt að það væri fullt og við gætum komið fjórum tímum fyrir næsta flug. Það þýddi að við kæmumst inn kl. 04 en nú var klukkan rétt um eitt.
Því var slegið í feitann Mac Donalds kjúklingaborgara enda út í horni fjarri þeirri troðfullu flugstöð sem við vorum í. Þar dormuðum við fram á borðið og að endingu, til að sofna ekki á búllunni, ákváðum við að fara í gönguferð. Það var eins og að við værum í allt annarri flugstöð því nú var vart fólk að sjá. Öll flug virtust vera farin.
Ákveðið var að prófa aftur loungið og viti menn það var nánast tómt og nú var klukkan að verða tvö um nóttina. Þar dormuðum við í stólum því engir bekkir voru á lausu og þar skvöldruðu menn hér og þar eins og að þeir væru á miðjum degi að tuða um pólitík. Ekkert tillit tekið til örþreyttra ferðalanga.
Næsta flug var klukkan átta um morguninn og hafi fyrri flug verið erfið þá voru þau hjómið eitt við þetta. Flugfélagið Qatar fór nú með okkur í algjörri síldartunnu og þar sátum við í sætaröð 54 af 55 sætaröðum. Ég var í miðjusæti og hafi ég einhvern tíma átt í vandræðum með að borða í flugi þá var það hjómið eitt miðað við þetta.
Að endingu lauk því flugi eftir að við höfum dottið út í tíma og ótíma með ýmsar kvikmyndir á skjánum og þegar við lentum fórum við að ræða að við hefðum ekki hugmynd um hversu mörgum kvikmyndum við hefðum náð að sjá allar eða bara að hluta til á þessu ferðalagi.
Það kom okkur mest á óvart hversu hratt og vel okkur tókst að komast úr flugvélinni og upp á hótel sem sannarlega tók vel á móti okkur. Glæsileg svíta þar sem byrjað var á að fara í sturtu, panta mat og taka síðan föstu tökum að rétta sólarhringinn við á ný.
0 Comments