Eins og sagt var frá í gær þá sofnuðum við snemma en að sama skapi varð rask á svefni óvenju snemma. Klukkan 4 vaknaði ég og varð þess var að ég var ekki á íslenska tímabeltinu. Það varð því fyrirskipun til sjálfs mín að halda áfram svefni en ég gat ekki haldið lengur út en til rúmlega fimm. BK vaknaði skömmu síðar og þá rifjaðist upp fyrir mér að hafa vaknað í nótt við að sjá hann standa við rúmið hjá mér og grípa í hendina á honum því mér fannst hann hafa dottið út úr sínu rúmi. Hann kannaðist ekkert við það og því er staðan sú að annað hvort gekk hann í svefni eða ég ruglaðist í draumalandinu. Held að þetta dularfulla mál muni ekki skýrast enda skiptir það engu máli.

Við ákváðum að fara snemma í morgunmat og njóta hans á hótelinu. Ekki voru margir í morgunverðarsalnum en það var sambland af bandarískum og evrópskum morgunmat eins og við okkur var sagt þegar tekið var á móti okkur. Við fórum saddir frá ánægjulegu morgunverðarborði og nú skyldi haldið í líkamsræktina og svo í sund áður en við færum út til að skoða umhverfið því nokkuð yrði þar til verslanir opnuðu.

Við vorum rétt komnir upp götuna, á gönguleið að verslunarmiðstöð sem við höfðum augastað á, þegar okkur datt í hug að fara heldur í átt að Target sem við vissum að væri ekki langt frá Apple búðinni. Við römbuðum á endanum á hana og þegar þangað kom hafði hún opnað enda höfðum við grun um að þar yrði opnað fyrr en verslunarmiðstöðin. Þar var fundið góðgæti til að hafa í fermingunni og ýmislegt hannað skoðað í þessari ágætu verslun. Það var því ljóst að við þyrftum að stefna beint á hótelið enda bakpokinn orðinn troðfullur og bréfpoki með í för.

Nú var stefnt á verslunarmiðstöðina og þar mættum við hálftíma fyrir opnun. Þann tíma notuðum við til að skanna hvaða verslanir væru í henni og um leið og opnaði byrjuðum við á áttundu hæð og unnum okkur niður enda höfðum við notað hálftímann við að vinna okkur upp.

Fyrsta verslun dagsins bauð upp á skjá þar sem þekkt fjall á Íslandi var sýnt á skjá. Við afrekuðum að kaupa fermingabuxurnar og vorum nokkuð nærri kaupum á fermingaskóm en þeir féllu á smávægilegu máli sem er að þeir meiddu. Það má segja að við höfðum miklar væntingar til þeirra enda vorum við báðir afar ánægðir með útlitið. Ég reyndar sá að ég væri alveg tilbúinn í að breyta alveg um stíl en ég fékk skilaboð að heiman að slíkt væri ekki í boði ef minn húslykill ætti að geta opnað það.

Nú var komið að hádegismat og við fundum stað sem við báðir höfum áður borðað á og valdið okkur mikilli ánægju. Sá heitir Cheescake Factory en við vorum ekki að fara í ostakökurnar þar heldur ljúffengan hádegismat. BK fékk sér alveg hrikalega flottan og girnilegan hamborgara meðan afi kallinn fékk sér tvo forrétti í stað aðalréttar. Sá var hrár túnfiskur á lárperugrunni með engifer. Þjóninn hélt að það yrði of lítið í kallin en því var fjarri.

Nú var farið á hótelið að skipta um gír og fara á nýjar slóðir og skella okkur í lest á svæði þar sem meira úrval væri af skóbúðum. Farið var búð úr búð og það eina sem við versluðum var meira sælgæti í ferminguna. Nú höldum við að því marki sé að fullu náð frá okkar sjónarmiði.

Eftir langa göngu ákváðum við að panta borð á veitingastað sem okkur leist vel á og sá heitir Weber Grill og eins og nafnið gefur til kynna var eldað á risastórum Weber grillum. Við áttum ekki borð þar fyrr en eftir tvo tíma svo okkur gafst tími til að kíkja í eina búð eða svo í leit að fermingaskóm. Við mættum síðan nákvæmlega á þeim tíma sem við áttum borð á grillinu og var vísað beint á borðið sem okkur var ætlað. Ekki ætlum við að mæla með þeim stað fyrir þjónustuna enda gleymdumst við um stund ef svo má að orði komast. Fyrsta korterið gerðist ekkert en á næstu borðum var full þjónusta en þeir þjónar áttu ekki borðið okkar og máttu því ekki sinna okkur. Við skyldum því ekkert þjórfé eftir á þeim veitingastað.

Þegar hér var komið við sögu voru allar fætur orðnar illilega þreyttir og því var haldið á hótelið þar sem við skelltum á einni mynd á HBO og lognuðumst við báðir út af áður en henni lauk.