Við vorum búnir að bíða lengi eftir þessum degi, 21. febrúar, en þá gekk í garð vetrarfrí í skólanum hjá BK og því tilvalið að skella sér á leik í Bandaríkjunum. Óskin var að sjá leik í NBA og völdum við amma leik Chicago Bulls og Boston Celtics sem fram fer á laugardaginn hér í borginni.
Farið var af stað til Keflavíkur upp úr hádeginu og náðum við að skoða okkur um í Flugstöðinni áður en lagt var af stað með flugvélinni Látrabjargi. Ekki amarleg vél enda alveg ný. Okkur var lofað góðu og öruggu ferðalagi enda tveir flugþjónar sem höfðu verið í þjálfun hjá mér á sínum tíma í notkun björgunarbáta í flugvélum.
Það var lent nákvæmlega á réttum tíma þótt seinkun hafi orðið á brottför að heiman en 6 tíma flugið leið eins og ekkert væri enda sátum við tveir í þriggja raða sætaröð og því var rúmt um okkur. Við náðum báðir að sjá nærri þrjár bíómyndir á leiðinni ásamt því að fá okkur smá snarl í vélinni. Ég fékk mér baunarétt og sá lét nú ekki á sér standa enda rak ég stanslaust við eftir það alla leiðina. Var í vandræðum með að fara á klósettið því þá rak ég líka við og lyktin var eftir því.
Í vegabréfaeftirlitinu komu upp smá vandræði en fyrst er farið í sjálfsala. Það var ekkert mál fyrir BK en kassinn var eitthvað í nöp við mig. Ég varð að gera tvær tilraunir og þrátt fyrir þær þá var stór kross yfir blaðið sem ég fékk út úr sjálfsalanum en BK var í fínu lagi. Það var engin brosmildi á landamæraverðinum þegar við mættum fyrir fram hann og ekki batnaði málið þegar þekktu vandræðin mín upphófust með sparnaði á að sýna fingraför. Það var þrýst og þrýst, upp og niður, út og suður en tókst að líkindum að lokum því út komust við. Ekki einu sinni spurt um tengsla okkar en að vísu vildi hann vita hvað við værum að gera og sýndist ekkert upprifinn af því að við værum mættir til að fara á körfuboltaleik.
Það tók okkur ekki langan tíma að fá töskuna og þá fórum við í rútu að lestarstöðinni sem reyndar var neðanjarðar og þangað þurfti að fara með lyftu sem reyndar var ekki mjög augljóst. En allt hafðist þetta fyrir rest.
BK náði í smá lúr í lestarferðinni sem tók klukkutíma og þegar við komum upp úr lestinni vissum við ekki hvar í veröldinni við vorum nema að þetta var Chicago. Ekkert eins og við áttum von á enda eftir smá rölt í leit að WiFi merkjum komumst við inn í veipubúð þar sem við fengum að tengjast netinu og komumst að því að við vorum á allt annari Grand stöð en er í 5 mínútna göngu frá hótelinu. Tókst okkur að húkka leigubíl sem kom okkur á leiðarenda.
Við vorum snöggir að koma okkur upp á herbergi til að losa okkur við dótið enda var stefnan á að komast í Apple búðina fyrir lokun en klukkan var alveg að verða 8 og aðeins klukkutími í lokun. Við náðum í góðan tíma í flottustu ever Apple búð sem við höfum séð og þar eignaðist BK nýjan iPhone XR síma enda sá gamli að niðurlotum kominn.
Það var glaður unglingur sem gekk út úr búðinni og nú skyldum við fá okkur að borða. Fyrir valinu varð pizza staður rétt hjá hótelinu þar sem gamli fékk sér pizzu með blómkálsbotni sem var alveg geggjuð en sá yngri fékk sér pepperoni pizzu.
Þá var aðeins eitt eftir af verkefni dagsins og það var Trader Joe’s þar sem birgðir voru keyptar fyrir hótelherbergið. Nú var næsta skref að halda sér vakandi sem lengst og horfa á sjónvarpið en það gekk skelfilega illa. Við á endanum gáfumst upp korter yfir 10 og slökktum ljósin.
2 Comments
Amma sem varð eftir heima
Æði skemmtið ykkur vel 😘
Sibbi
Cool. En passaðu þig á þessum baunaréttum Hilmar afi 🙂