Við strákarnir lognuðumst út af eins og áður sagði yfir bíómynd en BK vaknaði einhvern tíma um nóttina með gleraugun undir sér. Þau urðu þó ekki fyrir skemmdum. Við sváfum ögn lengur en í fyrri nótt því klukkan var orðin hálf átta þegar við vorum vaknaðir og farnir að huga að áætlun dagsins. Þetta var auðvitað stóri dagurinn þar sem við erum að fara á leik Bulls og Celtics í kvöld.

Morgunmatur var tekin á hótelinu enda vorum við nokkuð vel sáttir við það sem þar er á boðstólum. Meðan við sátum við morgunverðarborðið horfðum við yfir götuna og tókum þá ákvörðun að kíkja í verslanir sem þar voru, þ.e. Marshalls og T.J.Max, til að hafa eitthvað fyrir stafni áður en verslanir opnuðu.

Við strákarnir höfum verið í keppni um hvor staðsetur sig við réttu lyftuhurðina en þær eru þrjár. BK hefur enn sem komið er vinninginn.

Rúllustiginn upp í T.J.Max var mjög langur og þegar við yfirgáfum verslunina sagði BK að við hefðum eytt lengri tíma í rúllustiganum en í búðinni sjálfri. Sama gilti um hina sem staðsett var í kjallaranum.

Við áttum því ekki annarra kosta völ en að skella okkur út á götu og þá hófst þessi þokkalega rigning. Hún reyndar endaði með því að við keyptum regnhlíf í þeirri von að það myndi stytta upp um leið og hún var komin í okkar hendur. Það reyndist ekki alveg svo.

Næstu stundirnar voru notaðar í að skoða skóverslanir en hádegismaturinn var lögnu ákveðinn en við gerðum þó breytingu. Til stóð að fara á ShakeShack en þar sem við þurftum að verða okkur út um þjálfun í almenningssamgöngum ákváðum við að nýta það tækifæri og taka hádegismatinn á Five Guys enda þurfti að fara með neðanjarðarlestinni þangað.

Þvílíkir hamborgarar sem þar voru framreiddir.

Við ákváðum að rölta aðeins meira í búðir og síðan fá okkur klukkutíma hvíld fyrir leik.

Það tekur nokkurn tíma að komast á völlinn en við fórum með lest og síðan strætó. Við höfðum öðlast góða reynslu frá því fyrr í dag og áður en við vissum af vorum við komnir á völlinn. Fyrsta verk okkar var að fara í verslunina og fjárfesta í bolum á okkur strákanna til minningar um leikinn. BK sagði mér hvort liðið myndi vinna og á því var enginn vafi.

Þvílíkur leikur sem við sáum en fyrst og fermst var það allur umbúnaðurinn sem var áhugaverður. Við vorum harðir á því að byrja á því að fá okkur að borða svo við yrðum ekki svangir eftir leikinn. BK hafði á orði hvað ég héldi að væru margir íslendingar á þessum leik og sagði ég að mitt mat væri átta að okkur meðtöldum. Ég þurfti að skreppa á klósettið og þar hitti ég tvo. Hinir fjórir hafa því eflaust verið á öðrum stað á vellinum. Þessi leikur verður lengi í minnum hafður sökum þess að þetta var fyrsti leikur okkar í NBA fyrir utan að vera femingargjöfin.

 

Það voru þreyttir strákar sem komu til baka á hótelið sex tímum seinna.