Eftir samtal við ömmu í gær þá höfðum við ákveðið að skella okkur í smá verslunarferð og skoða Nike factory outlet til að freista þess að finna fermingaskó. Við reyndar vöknuðum ekki alveg á áætluðum tíma en við erum nú ekki lengi að hafa okkur til með sturtu og morgunmat en við fórum hálftíma síðar en áætlunin hafði gert ráð fyrir.
Við áttum fyrir höndum nærri 55 mínútna ferðalag með lest, strætó og fjórum jafnfljótum. Þegar við mættum á brautarstöðina varð úr að við völdum fremsta vagninn þar sem við myndum koma fyrr á áfangastað með því móti og á undan öllum hinum. Við áttum ekki eftir að sjá fólk með okkar húðlit fyrr en við vorum á næst síðustu brautarstöðinni áður en við komum til baka á hótelið.
Við fundum verslunina sem um var rætt en hún var troðfull af fóki og ég held að þar hafi líka verið tónleikar í gangi því svo mikill var hávaðinn í versluninni. Þar lék plötusnúður öllum látum í tónlist sinni sem hefur lítið með þann tónlistarsmekk sem ég hef og líklega enginn í okkar fjölskyldu. Eftir að við höfðum öskrað á hvorn annan hvernig gengi þá ákváðum við að nú skyldi verslun lokið í dag og því keyptir fermingaskórnir sem við hefðum geta reyndar keypt deginum áður í götunni „okkar“. En ferðalagið var sannarlega þess virði.
Þegar á hótelið var komið tók við næsta áætlun en það var hádegismatur á Shake Shack hamborgarastaðnum sem mjög er rómaður. Hann brást alls ekki væntingum okkar þótt ég reyndar fékk mér kjúkling enda ekki í boði bunless borgari aðeins gluten free.
Næsta var að nota samgöngukerfið út í ystu æsar enda höfðum við keypt okkur dagspassa og það skyldi fullnýtt.
Stefnan var sett á 360 Chicago Observatory turninn sem við vorum búnir að kaupa okkur miða í. Þegar þangað kom var þar allt fullt af fólki sem virtist vera að undirbúa sig undir einhverja keppni og höfum við grun um að það hafi verið kapphlaup til að komast upp á efstu hæð hússins. Var okkur tjáð að það sem við værum að sækjast eftir væri lokað til 16:30 og því varð að breyta áætlun. Við fórum því í strætó í átt að Navy Pier. Það kom okkur mest á óvart eftir ferðalag með tæknivæddum Bandaríkjunum að þegar strætó stoppaði þurfti að opna hurðir að aftan með því að ýta á þær en hjá okkur gerist það sjálfkrafa. Ræðum ekkert um bjöllukerfið hmm.
Það var nú ekki mikið mál að venda okkar kvæði í kross því við ætluðum hvort eð er niður á Navy Pier og að sjálfsögðu var strætó nýttur til fararinnar. Þar sem hávetur er þá var minna um að vera þar en við áætlum að sé svona dags daglega. Við ákváðum að skella okkur því í parísarhjólaferð og þurftum ekki einu sinni að bíða eftir að komast að. Þar nutum við sannarlega útsýnisins en vitandi að við áttum eftir að fara enn hærra síðar í dag. Gott að byrja lágt og enda hátt.
Þetta var ekki það eina sem við gerðum á þessum flotta stað því við áttum þess kosta völ að fara í völundarhús sem okkur tókst að komast í gegnum þrátt fyrir að við mætutm fólki sem var rammvillt. Það gekk ýmislegt á á ferðalaginu okkar í gegn eins og pálmatrjáa komplexar.
Við fórum síðan á hótelið til að taka smá pásu frá skónum þar sem fæturnir eru ekki svona vanir að vera langtímum saman í þeim.
Næsta verkefni var að skella okkur í turninn en þegar þangað kom eftir góða strætóferð (enda verið að fullnýta dagskortið) þá var stór miði á glugganum sem sagði að sökum mikils vinds væri útsýnispallurinn lokaður þar til níu í fyrramálið. Okkur þótti nú lítið til komið um vindinn en engu að síður við fengum engu hér um ráðið. Þegar í stað var búin til ný aðgerðaráætlun og farið í næsta hús þar sem sinnt var nokkrum nauðsynlegum viðskiptum í unglingaverslunum. Við sáum líka verslun sem Elma Rún hefði elskað.
Við höfðum ákveðið að skella okkur í keilu og því var að finna næsta strætó sem myndi leiða okkur á rétta staðinn. Það var eins og við manninn mælt að þegar við stigum út úr vagninum opnaðist hurðin inn í keilusalinn.
BK átti eftir að leggja afa sinn að velli í baráttunni næsta klukkutíman þegar við héldum út með teygða arma út í vetrarkuldan og rokið. Eplabúðin var lokuð en þangað ætluðum við til að fræðast meira um það sem við þegar vitum en því var ekkert annað að gera en að nýta eina ferðina enn á strætómiðanum og koma okkur heim á hótel til að klára síðustu 10 mínúturnar af myndinni sem við höfum verið að horfa á með Tom og Cameron.
Valið stóð um tvo veitingastaði. Mexikóskan við hliðina á hótelinu eða TGI Friday og varð sá síðarnefndi fyrir valinu. Þar nutum við sannarlega vel síðustu kvöldmáltíðarinnar í Chicago. Eins og þekkt er í henni stóru Ameríku þá eru skammtarnir ávallt í stærri kantinum og vorum við ekki sérlega óánægðir með það því þá áttum við afgang til að gefa einhverjum sem minna máttu sín. BK sá um þann hluta og að endingu eftir smá göngu í kringum hótelið þá urðu á vegi okkar fólk sem þáði góðgerðirnar sem voru afgangur af kjúkling og rifjasteik. Dagslok voru áhorf á þá frábæru mynd Short Time.
1 Comments
Sibbi
Magnaður dagir hjá ykkur. En komist þið i þennan utsynisturn áður en þið farið heim. Það verður spennandi að vita. Kanski verður hann bara lokaður aftur 🙁
Þið hafið aldeilis gengið framhja mögnuðum byggingum i dag. Ja og séð inni pálmatré, við getum lært mikið af Chicagobúum. 🙂