Þá rennur síðasti dagurinn okkar hér í Chicago upp. Við vorum með gífurlega góða áætlun fyrir daginn en það fyrsta, eftir morgunmat, var að fara í 360°Chicago turninn og fara í Tilt gluggana.

Þar voru við mættir um leið og opnaði en fámenni var á staðnum. Það var farið með lyftu upp á 94 hæð þar sem var útsýni yfir alla borgina í allar áttir. Veðrið var einstakt og því hægt að njóta þess vel. Það var ekki opnað í veltigluggana fyrr en 20 mínútum eftir að við mættum á staðinn en engu að síður vorum við fyrstir í röðinni en átta manns komust að í einu. Ég held að það hafi verið allir sem voru á hæðinni þennan tíma sem sýnir vel hversu troðið var þarna. Það var sérstök upplifun að lafa svona útfyrir bygginuna og horfa niður á götu þar sem fólkið leit úr fyrir að vera maurar á ferð.

Næsta verkefni var að græja eitthvað meira í formi fatnaðar á unglinginn og því var farið í verslunarmiðstöðina í næsta húsi og við tilbúnir við óskaverslanirnar á slaginu 10 þegar opnaði.

Ekki var mikið sem við sáum þar og því var næsta skref að koma okkur heim á hótel og klára að pakka niður og síðan tékka okkur út af því. Töskunum komið í geymslu og þar lauk hörku keppni okkar strákanna í að finna út hvaða lyftu yrði ferðast með hverju sinni þegar komið eða farið var um hótelið eins og áður hefur komið fram. Því er skemmst frá að segja að BK hafði yfirburðasigur í þessari keppni okkar.

Nú var stefnan tekin á aðra verslunargötu þar sem síðasta hönd var lögð á verslun og viðskipti að þessu sinni. Til að halda upp á það skelltum við okkur á pizza stað til að fá okkur hádegismat. Þar sátum við til borðs með ekki ómerkari mönnum en Muhamed Ali og Michael Jordan.

Við áttum eftir að fara í merkilegan garð áður en haldið var í átt að hótelinu. Reyndar sáum við færi á að kíkja í Eplabúðina og eyða þar smávegis en allra síðasta búðin var Underarmour verslunin.

Nú var tími komin til að huga að brottför en áður var tími til að fá okkur einn drykk á veitingastað rétt við hótelið því nauðsynlegt var orðið að komast á salerni.

Frá því við gengum út úr hótelinu með töskurnar okkar og þar til við gengum í átt að öryggishliðinu í flugstöðinni leið nákvæmlega ein klukkustund sem var mun styttri tími en við höfðum áætlað.

Núna sitjum við á agnarlitlum veitingastað og bíðum þess að flugvélin komi svo hægt sé að bjóða nýjum farþegum um borð og eyða sex klukkustundum í heimflug. Verðum örugglega þreyttir þegar heim verður komið en saddir, sælir og ánægðir strákar eftir frábæra ferð saman.