Charish hótel í Hue var svefnstaðurinn okkar í nótt en við vorum mætt í morgunmat kl. 07 og þar voru mættar vinkonur okkar frá Ástralíu. Kerlurnar lögðu af stað með flugi hálftíma fyrir okkar flug, sem síðar seinkaði um 30 mínútur, en þegar við hjónin vorum loksins komin inn á hótelið í gærkvöldi kl 21:10 voru þær ekki komnar. Þær þurftu að keyra í tæpa þrjá tíma frá Dan Nang til Hue. Eftir morgunmat þurftum við að tékka okkur út af hótelinu og koma töskunum í geymslu því þær myndum við nálgast í lok skoðunarferðarinnar sem framundan var. Leiðsögumaður var mættur í andyri hótelsins til að taka okkur í skoðunarferð um merkilega staði í borginni en hann sagðist heita Hóa og hafa verið enskukennari í Víetnömskum skóla. Hann talaði líka miklu betri ensku en fyrri leiðsögumenn okkar.
Byrjaði hann á því að fara með okkur á morgunmarkaðinn í Hue en þar er bæði matarmarkaður sem og allt sem huganum girnist. Áður en inn var farið fræddi Hóa okkur um að það væri hægt að kaupa allt úr pappír. Skiptir engu máli hvað það væri því hjá þeim væri það trúin að á dánargegi einhvers þá væru allir þeir hlutir sem talið væri að viðkomandi þyrfti, þegar yfir móðuna er farið, á að halda. Þetta gætu verið pappírspeningar, pappírssímar, pappírsbílar og svona gæti ég haldið áfram endalaust. Meira að segja er hægt að senda gleðikonur ef slíkt gæti glatt einhverja í framhaldslífinu. Allt það sem sent er yfir er skráð með nafni og heimilisfangi en síðan brennt á báli. Þá kemst það á réttan stað hjá þeim sem farnir eru. Þetta verður að gerast á dánardegi viðkomandi. Við setjum bara kerti og blóm.
Þaðan var farið í skoðunarferð um Keisaralegu borgina (Imperial city) sem er engin smásmíði. Reyndar höfðu BandarÍkjamenn minnkað húsafjöldann talsvert með loftárásum en unnið er að uppbyggingu svæðisins sem eru 4 km2 að stærð. Þá skoðuðum við grafhýsi tveggja keisara, Minh Mang og Tu Duc, sem sýnir vel hversu sjálfsdýrkun þeirra var sem og veldi. Ekki nema von að hér reis um alda gegn keisaraveldinu sem sumir hverjir píndu þjóðina illilega til þess eins að reysa sjálfum sér grafhýsi.