Ferðin okkar hófst reyndar á fermingardaginn hans Björns Kára dóttursonar okkar. Við áttum yndislegan dag í faðmi fjölskyldunnar þar sem farið var í kirkju og síðan haldin gríðar góð fermingarveisla.
Að henni lokinni var að fara heim og hefja undirbúning að næstu ferð okkar hjóna sem við höfum kallað „Coconut hittinginn“. Dótturdóttir okkar skutlaði gamla settinu út á flugvöll og ætlar hún að halda okkar bíl heitum þar til við komum heim aftur. Við flugum frá Keflavík til Munchen og þaðan áfram til Aþenu. Nú vorum við lögð af stað til Aþenu í gegnum Munchen til að fara um borð í Coconut sem liggur í höfninni í Lavrio sunnan við Aþenu. Til að örygginu væri sem best borgið fór ég með í handfarangri neyðarsendir á 406 mhz sem búin er GPS sendi og var aldrei gerð athugasemd um þann handfarangur. Það var akki auðveldasta flugið sem við höfum farið en flogið var frá KEF rétt fyrir hálf tvö að nóttu. Við lentum einhverntíman í Munchen og héldum þaðan einhverju síðan í raun jafn sofandi og þegar við fórum. Það rigndi eldi og brennistein í Aþenu þegar við lentum þar í orðsins fyllstu merkingu.
Klukkan var hálf tvö í Lavrion þegar við komum þangað. Nú er hún komin á flot og við verðum fyrst til að hreyfa hana eftir vetursetu. Áslaug hefur reyndar ekki séð hana fyrr, nema á myndum, en ég var um borð í september þegar við tókum við henni á eyjunni Kea í gríska eyjaklasanum. Við lentum þar eftir þrettán tíma flug og þótt okkur hafi tekist að sofa hluta leiðanna þá vorum við hundþreytt. Sú þreyta hvarf sjónum okkar þegar framundan var hittingur við Coconut. Eftir að hafa komist með farangur okkar á gistiheimilið var haldið niður á bryggju. Þrátt fyrir að Áslaug hafi aldrei séð skútuna var hún ekki lengi að finna hana í höfninni meðal hundruða skúta. Svo oft hafði hún séð hana á myndum að hún vildi fá að finna hana sjálf og fann.
Við eyddum góðri stund um borð þar sem við tókum skál fyrir okkur og hnetunni okkar enda engin áform um að sigla í dag. Vélin var gangsett sem og hún var loftræst og allur búnaður prófaður nema akkerisspilið.
Við fórum í verslun til að búa okkur til ferðalags en þó ekki til langsiglingar. Við ætlum að vera eina nótt á gistiheimili þar sem við vorum ekki viss hversu mikið þyfti að gera eftir vetursetu hnetunnar hér í höfninni. Við áttum yndislega stund um borð þar sem meðal annars íslenski fáninn var dreginn að húni og nú höfum við pantað annan stærri til að samsvara öðrum fánum í höfninni. Okkar var of lítill. Við versluðum til sólarhringsferðar en að vísu er eftir að sækja pappíra sem ég fer í að útvega í fyrramálið. Það þarf að heimsækja hafnarlögregluna til þess. Við áttum þokkalegan kvöldverð á veitingastað sem við eigum aldrei eftir að heimsækja aftur. Nú er að kveldi komið hjá hjónunum og við þurfum að vera snemma á fótum í fyrramálið. Því er ekkert eftir nema að segja „Góða nótt“
0 Comments