Laugardagurinn 30. september er runninn upp og þegar ég leit út um gluggann blasti við öskrandi Svartahafið. Hávaða rok og hitastigið ekki upp á marga fiska. Ég frétti síðar að fyrir nokkrum dögum hefði orðið snögg veðrabrigði.
Fundur byrjaði klukkan níu og var hann keyrður á ofurhraða sökum mikillar dagskrár. Klukkan tvö beið nefnilega rúta til að fara með okkur í skoðunarferð um CERONAV sjómannaskólann. Sömu kennslustofur og síðast nema nú var búið að skipta út hermunum fyrir nýja.
Þá var farið í siglingu um höfnina í Constanza sem er stærsta hafnarborg við Svartahaf. Það var að sjálfsögðu algjör paradís fyrir mig að fara í svona siglingu enda mikið af skipum í þessari umsvifamiklu höfn.
Siglingin endaði með því að farið var í gegnum skipastiga inn í Danebu ánna. Það var magnað að sjá hvernig komið er í veg fyrir að sjór geti blandast inn í ánna fyrir ofan.
Eftir siglinguna fórum við í vínverksmiðju þar sem einhverjar 11 tegundir af vínum voru smakkaðar undir leiðsögn eiganda brugghússins. Vínið var sannarlega gott enda var í brugghúsinu spilaðar symfóníur auk þess að hafa litríka lýsingu á tönkunum sem innihéldu fleiri hundruð tonn af ýmsum víntegundum.
Klukkan var komin fram yfir miðnætti þegar við loksins komumst inn á hótelið en með þeim skilaboðum að við ættum að vera tilbúin í andyri hótelsins átta morguninn og þá að vera búin að tékka út. Það var ekki laust við að þreytan væri farin að segja til sín en allan tímann sem setið var í rútu fram að brugghúsinu talaði leiðsögumaður dagsins stanslaust.
0 Comments