Þetta er sem sagt laugaardagsbloggið en sökum mikils gleðskapar í gærkvöldi tókst ekki að klára að setja inn bloggið. Það er ekki á hverjum degi sem stjórnir falla. Síðasti dagurinn okkar á vegum ferðaskrifstofunnar Vietnam Unique Tours http://www.vietnamuniquetours.com sem við getum svo sannarlega mælt með í hástert. Sú sem sá um okkar mál, Sunny, hefur sannarlega unnið sitt starf vel því það hefur verið farið með okkur eins og kóngafólk þessa daga sem við höfum verið hér í landinu. Allt staðist 100% og á hverjum stað hefur verið tekið á móti okkur með áhuga og virðingu. Dagurinn í dag var í margt áhugaverður en engu að síður erfiður.Við vöknuðum reyndar óvenju snemma í morgun, klukkan fimm, þegar húspassarinn okkar hringdi óvart í símann hjá frænku sinni. Það kom þó ekki svo að sök enda átti vekjarinn að ná okkur á lappir hálftíma síðar. Við vorum nefnilega á leiðinni á fljótandi markað. Það voru líka ástralíuvinirnir okkar og borðuðum við morgunmat saman á hótelinu. Við vorum ekki í sama hópi heldur héldum við áfram með pólsku vinkonum okkar, þeim Marzönnu og Romönnu, sem voru virkilega skemmtilegir ferðafélagar. Vissulega söknuðum við okkar vinkvenna en vissum að við áttum eftir að hittast aftur.


Við vorum sótt rétt fyrir sjö og síðan voru þær stöllur sóttar en þær voru á öðru hóteli ekki svo langt frá okkur. Leiðsögumaðurinn, sem ég ætla að kalla héðan í frá „strákinn“ sem passaði að við værum á réttum stað á réttum tíma, sagði okkur að þetta væri um klukkutíma keyrsla og þegar við vorum búin að koma okkur vel fyrir í bílnum og skiptast á skoðunum um hótelin okkar vorum við komin á áfangastað. Það voru í mesta lagi átta mínutur. Þá tók við bátsferð sem var afar áhugaverð, áhugaverð fyrir þá flutningaleið sem hún var. Þarna fóru um skip flytjandi farma af hrísgrjónum, múrsteinum, grús, timbri og ótal öðrum förmum. Eiginlega búlkskip en svo komum við á markaðinn. Markaðurinn samanstóð af fjölda báta sem hlaðnir voru ýmsum tegundum af ávöxtum og grænmeti en sjá mátti hvað selt var um borð með því að horfa í mastur þeirra. Aðspurður sagði strákurinn að aðalviðskiptavinirnir væru veitingastaðir og hótel. Ég ætla að setja myndirnar af þeim markaði í sér blogg því það var svo myndvænt.



Á siglingunni sáum við áströlsku vinkonur okkur á öðrum bát og með þeim var parið sem við höfðum ferðast með áður sem voru frá Ítalíu en bjuggu í Madríd (það eru hjónin sem sitja fyrir framan gömlurnar). Þá fórum við að skoða hvernig núðlurnar, sem við getum keypt úti í búð, eru búnar til. Allt önnur sýn sem við fengum á gerð þessa matar sem er svo mikilvægur stórum hluta mannkyns. Til að kynda ofnanna eru notaðar tuskur sem eru í raun fatnaður sem hefur verið hent og má því sjá hvernig Gap, H&M og fleiri vörumerki stuðla að því að búa til núðlur svo við stækkum og stækkum og þurfum að kaupa meiri fatnað af þessum verslunum og hendum gamla fatnaðinu. Sá er notaður til að búa til meiri núðlur………… Við áttum að fara á tvo staði en sökum mikillar ólyktar á seinni staðnum urðum við frá að víkja þar sem ekki var okkur bjóðandi að fara þar inn.



Að þessu loknu var haldið til baka til Ho Chi Ming borgar, eða Saigon, en aksturinn var áætlaður fjórir tímar. Reyndar var stoppað á leiðinni til að borða hádegismat en það reyndist ekki einleikið með þann stað. Í fyrstu ákvað Áslaug að skjótast á klósettið en kom skömmu síðar, alveg hvít, til baka enda hafði verið þessi risa stóra könguló á klósettinu. Við fundum annað sem var án þessa heimilisdýra. 
Það var aðeins byrjunin því við hjónin pöntuðum okkur flösku af hvítvíni með matnum. Loksins kom flaskan en stúlkukindin sem kom með hana hafði sýnilega aldrei opnað vínflösku fyrr. Hún byrjaði á því að taka fram hnífinn til að skera kápuna en ég verð að segja að ég hélt hún myndi fyrirfara sér við verkið. Loksins tókst henni að ná kápunni af en þá var eftir að opna flöskuna. Hún byrjaði og þegar hún var rétt komin niður í tappann hóf hún að opna flöskuna. Hún hefur mögulega séð einhvern tímann í bíómynd hvernig eigi að opna vínflösku en án nokkurs vafa, okkar fjögurra við borðið, hafði hún aldrei upplifað slíkt sjálf. Henni tókst þó á endanum að ná tappanum upp og þá hófst áhellun í glösin okkar. Við þekkjum að hellt er í eitt glas til að smakka vínið og síðan hellt í önnur glös. Nú brá svo við að hellt var álíka magni í glös okkar beggja eins og í smakki. Síðan hvarf stúlkan á braut. Jæja en hvað þá? Við smökkuðum vínið, stúlkan farin, en vínið var svo illa skemmt að það var með öllu ódrekkandi. Kallað var á þjón en hann skyldi enga ensku. Sú náði í aðra sem náði í þriðju og að endingu mætti strákurinn á svæðið. Pirrings var farið að gæta hjá starfsfólkinu og fór það ekki á milli mála. Vínið var engu að síður gjörsamlega ódrekkandi enda orðið súrt. Ekkert gekk fyrr en Áslaug sagðist ekki nenna þessu lengur og bað um bjór. Fegnum við bjór og flaskan var gleymd „forever“ enda vorum við í fríi og ekki staður né stund að fara í breytingar á menningu þjóðar.


Við komum á hótelið rétt rúmlega tvö en nánast alla leiðina svaf strákurinn. Við vorum svo lánsöm að þurfa ekki að gefa stráknum ummæli áður en við færum úr rútunni en slík ummæli væru einfaldlega zzzzzzz. Meðan hann var vakandi var hann þó að hlæja með okkur. Við heimkomuna lagðist Áslaug í stórþvott. Þvílík kona sem hún er. Það voru þvegin plöggin af hjónunum til að við næðum að komast heim án þess að drepa alla í kringum okkur úr daun.


Við skruppum í bæinn enda í fyrsta sinn sem okkur hefur tekist að sjá umhverfi hótelsins í björtu. Við gengum af stað í þurru veðri en enduðum í haugarigningu. Við fundum nýopnaða H&M verslun sem reyndar opnaði ekki fyrr en í september eða tveimur vikum á eftir okkur á Íslandi.

 Við mættum síðan í andyri hótelsins klukkan rúmlega sex til að hitta áströlsku vinkonur okkar enda höfðum við gert áætlun um að hafa kveðjuhóf. Við byrjuðum á fordrykk í andyri hótelsins (þar var barinn) en borðuðum kvöldverðinn á 13 hæð hótelsins. Það var erfitt að kveðjast, enda eru allar kveðjustundir þannig, en markmið voru sett um það að hittast í komandi framtíð. En það er þetta með matseðilinn sem eitthvað var að trufla mig.