Þó mikið hafi verið skrifað í gær þá var dagurinn svo langur að sökum þreytu var ekki allt sagt sem til stóð að segja frá. Eins og að leiðsögumaður gærdagsins hét Tom og var að fara með okkur í Cruise… Hér á að hlæja eða alla vega vildi hann það. En nú er kominn nýr dagur og ný verkefni. Í gær ferðuðumst við með pörum frá Puerto Rico, London og Ítalíu (búsett á Spáni) en í dag voru það tvær pólskar konur. Okkur leyst nú ekki alveg í byrjun á þær þar sem þær gáfu lítið af sér fyrstu fimm mínúturnar en þegar þær uppgötvuðu að við værum Íslendingar gjörbreyttist andinn. Við áttum síðan eftir að hlæja mikið allan daginn, nema þegar við hvíldum okkur, enda náði hópurinn mjög vel saman. Við höfum reyndar smá áhyggjur, hjónin, með þá ferðafélaga sem við veljumst með þar sem við erum búin að vera með áströlsku hjúkkunum okkar frá fyrsta degi, nema síðustu tvo daga, en nú fengum við tvo lækna frá Póllandi. Önnur, Marzenna, reyndar tannlæknir en hin, Romana, prófessor í taugalækningum. Við erum alla vega í góðum höndum ef eitthvað bjátar á heilsufarslega skyldum við ætla. 

Dagurinn byrjaði á því að leiðsögumaður dagsins, Tim, upplýsti okkur um að við myndum keyra í rúmann klukkutíma þar til við fengum fyrsta stoppið en bara til þess að finna „Happy Room“ og versla eitthvað merkilegt. 



Stefnan var hinsvegar á að fara í siglingu um Mekong fljótið og skoða sig þar um. Reyndar dálítið langt inn í landi því ég hefði nú frekar valið að vera við ósana enda umtalsvert stærri skip þar á ferð. Hef rétt náð að bera það svæði augum þegar keyrt var þar framhjá í gær. Við sigldum á bát innan um fljótandi ávaxtamarkað þar sem við fengum kókoshnetu ásamt ávexti sem við höfum ekki grænan grun um hvað heitir. Smakkaðist alla vega vel og við enn á lífi nú mörgum stundum síðar. 


Síðan var farið á markað í landi sem í senn var fræðandi og áhugaverður. Fyrst byrjuðum við á býflugnabúi þar sem við fengum að smakka hunangið auk þess sem boðið var upp á að prófa krem sem nota má bæði innan sem utan. Sagt vera undrameðal og yngja konur upp svo árum skiptir. Marzenna lét vaða og áætlar hún að vera um tvítugt á morgun. Við bíðum spennt þangað til en við eigum að hittast aftur kl. 07 í fyrramálið. 


Eftir að skipti á vörum fyrir fjármuni var haldið í kókoskaramellu gerð þar sem einnig var búið til hrísgrjónakökur, hrísgrjónasnakk og hrísgrjónavín. Þvílíkt lostæti sem boðið var upp á þar með talið hrísgrjónavínið. 


Þá var haldið aftur til skips og nú siglt að hinum bakka fljótsins. Þar var róið með okkur um votlendi árinnar. Við vonuðumst eftir að fá kvennkyns ræðara en því miður gekk það ekki eftir heldur fengum við karlfausk sem gerði ekkert annað en að tala í símann og réri því einungis með annarri árinni. Það markverða í þessari för var fegurðin annars vegar og ruslið hinsvegar. Plast er allsstaðar og sannarlega áhyggjur að svo mikið plast fljóti um ár, fljót og höf eins og við höfum séð hér í landi. Ég hef grun um að leiðsögumaðurinn hafi verið alveg himinlifandi yfir að senda okkur í þessa bátsför enda skellti hann sér beint í koju þrátt fyrir að hafa sofið mikinn hluta af leiðinni hingað. Hann átti eftir að sofa líka á heimleiðinni enda búinn að vera giftur aðeins í 7 mánuði.


Hádegismatur var að sjálfsögðu að heimasið þar sem ung kona útbjó vorrúllur með Fílaeyrnafiski. Við höfðum reyndar skoðað þennan fisk í búri á hunangsbúgarðinum og fannst Romönu hann vera í útliti eins og Pamela Anderson. Þeir sem ekki vita hver hún er verða bara að gúggla það. 


Eftir matinn hlustuðum við á víetnamska söngva sem við skyldum hreinlega ekki nokkurn skapaðan hlut í en ljóst var að þeir voru hluti af leikþætti en leiðsögumaðurinn var svo upptekinn að svara SMSunum sínum að við urðum litlu nær hvað var í gangi. Klöppuðum á vitlausum stöðum og vissum ekki hvenær sumum atriðunum var lokið.


Að lokum var haldið aftur til hafnar og ferðinni haldið til borgarinnar Can Tho sem er eins og nafnið gefur til í Víetnam. Nú þegar þetta er skrifað höfum við hjónin ekki komist í annað en að skrifa því að hér fyrir utan er þvílík rigning að ekki er hundi út sigandi sem stendur. Það verður vonandi ráðin bót á því fljótlega hjá honum Búdda.




Eftirmáli

Það stytti upp um síðir en þá sátum við með áströlsku vinkonum okkar á barnum en þær komu seinna á hótelið en við. Mikil gleði að hittast eins og við var að búast. Við hjónin ákváðum að skella okkur út að borða en vinkonur okkar ætluðu snemma í háttinn enda erum við að fara í fyrramálið fyrir allar aldir. Fundum reyndar engan spennandi stað og enduðum á skyndibitastað í verslunarmiðstöð rétt hjá hótelinu. Þar var hægt að fá kjúklingavængi. Það hefur nú verið alveg ágætt fyrir okkur hjónin að borða 6 til 8 slíka bita hvort og því pöntuðum við sex með ostaívafi og sex venjulega. Hér í landi eru slíkir bitar reyndar engin smásmíði þar sem hér fengum við allan vænginn eins og hann lagði sig og bringan með. Talsvert meira en við eigum að venjast í Evrópu eða Ameríku. Það endaði á því að fjórir bitar voru borðaðir af tólf en restin sett í doggy bag eða hundapoka. Við fórum því klifjuð út af staðnum og mér til mikillar gleði gat ég gefið matinn tveimur fullorðnum konum sem voru að baxa við að ýta ruslavögnum eftir aðalgötunni. Brosið sem ég fékk var óborganlegt sökum gleði þeirra og ekki skemmdi tannleysið fyrir.  Myndin sýnir aðeins annan skammtinn en sá síðari var engu minni.