Það var loksins komið að því að fara aftur í hitt landið okkar, Namibíu, þegar við lögðum af stað snemma morguns 18. desember 2019. Við hjónin vorum að fara þangað í fimmta sinn en við urðum þess heiðurs aðnjótandi árið 2003 að fá að taka þátt í þróunarsamvinnuverkefni Íslands og Namibíu á þeim tíma. Nú verður sögð ferðasagan af okkur og vinum okkar til þessa yndislega lands sem á allan hug okkar hjóna. Við nefnilega fengum, þegar við fyrst komum hingað 2001, hina ólæknanlegu veiki sem kallast African fewer.

Frankfurt flugið

Leið okkar var því miður ekki í einu flugi en við fórum með Icelandair til Frankfurt sem gaf okkur möguleika á því að komast á hinn fræga jólamarkað þar í borg sökum tímalengdar milli fluga. Jólamarkaðurinn var hreint út sagt áhugaverður þótt aðeins hafi verið keyptur hnetubrjótur ársins sem síðan á eftir að ferðast suður fyrir miðbaug og aftur heim. Sá mun skreyta Klukkuholtið að ári.

Við áttum tæplega tíu tíma flug fyrir höndum frá Frankfurt til Windhoek sem er höfuðborgin í Namibíu. Það var rétt rúmlega sex um morguninn sem við lentum þar og þegar við komum inn í flugstöðvarbygginguna var okkur vísað á að fara í gegnum vegabréfaeftirlitið sem handhafar namibískra vegabréfa og sumum af okkar hópi átta manns fóru í gegnum diplómatahliðið. Segir meira en mörg orð um orðspor okkar hversu gott það er. Aðrir flugfarþegar voru í langri röð að vegabréfaeftirlitinu.

Eftir smá bras við að komast frá flughöfninni (kaupa símakort) var haldið í fyrsta áfangastað, Onjala Spa Lodge, sem var um 40 km frá flugvellinum. Við komum reyndar ekki þangað fyrr en rétt fyrir 10 um morguninn en við hjóninn höfðum mælt okkur mót með Herbert og Ulrike sem voru sendiherrahjón Þýskalands síðustu fjögur árin á Íslandi en nýflutt til Namibíu. Við renndum okkur í bæinn en vegalengdin var lengri en við höfðum reiknað með og því varð heimsókn okkar styttri en við ætluðum. Herbert var ekki heima en Ulrike tók á móti okkur með sínum glæsibrag. Hún skyldi vel stöðuna hjá okkur enda áttum við að vera mætt í nudd kl. 14 þennan dag og annar tími var ekki í boði á gististaðnum okkar.

Við skiptumst á knúsum og “peningum” en við vorum að borga henni í namibíudollurum greiðslu sem við fengum frá nemanda hennar í þýsku á Íslandi.

Við rétt náðum í nuddið og síðan var dagurinn tekinn í góðri slökun enda voru við búin að vera á löngu og ströngu ferðalagi í rúman sólarhring. Kvöldmaturinn var eins og við er að búast hér í þessu landi. Villibráð með góðu meðlæti.

Zelda og hennar fjölskylda reka þennan stað en þau hjónin eru vinir Heddu frá tíma þeirra í Lüteritz hér fyrr á árum. Yndisleg fjölskylda sem tók okkur með kostum og kynjum. Þökkum við kærlega fyrir okkur.