Þegar erlendar borgir eru heimsóttar í fyrsta sinn þá er ekki alveg laust við að erfitt sé að átta sig á umhverfinu hvað þá þegar borgin hýsir 10 milljónir manna. Má því með sanni segja að ef við tökum Reykjavík sem dæmi séum við hjónin búin að skoða sem nemur frá Bankastræti og niður á Lækjartorg.
Við hófum daginn á gönguferð þar sem skoðað var í örfáar verslanir enda er slík nauðsynlegt þegar hitastigið utandyra er um og yfir 30°c. Reyndar eru það verslunarmiðstöðvar sem eru hér út um allt en ekki líkt og við þekkjum að ganga búð úr búð eftir götunni heldur er farið á milli verslunarmiðstöðva. Einmitt það þurftum við að gera því ég var að láta sauma á mig jakkaföt í einni þeirra.
Eitthvað seinkaði mátun hjá mér sem við hjónin nýttum til að læra betur á lestarkerfi borgarinnar því þar eru þrjú mismunandi kerfi í gangi. Nú var það neðanjarðalestakerfið sem við kynntum okkur.
Á öllu þessum þvæling okkar um þennan litla part af borginni þá hefur mér liðið eins og að við værum í kvikmyndinni „The Fifth Element“ þar sem borgin var öll í lögum. Gatnakerfið hér er álíka. Við gátum verið á götunni, göngubrúm yfir þeim eða lestarkerfi á tveimur hæðum þar fyrir ofan að ekki sé talað um neðanjarðarkerfið.
Við skoðuðum einnig eitthvað af mannlífinu enda skelltum við okkur að skoða Kínahverfið enda vorum við orðin svöng og þar hlyti að vera veitingastaður til að nærast í hádeginu. Ekki virtist vera neinn skortur á veitingastöðum en engan vegin fegnum við okkur til að líta inn á þá.
Við komum okkur því út úr þessu hverfi og fundum loks veitingastað sem reyndar var steikhús. Þar gátum við fengið okkur léttan hádegisverð en sjá mátti að staðurinn hlyti að vera vinsæll þrátt fyrir að tælendingar eru litlar kjötætur sérstaklega á rautt kjöt. Ég ætla ekki að sýna myndir frá matnum heldur því sem mér þótti merkilegra en það voru salerni karla.
Hátindur dagsins var ferð sem við höfðum pantað okkur áður en haldið var að heiman sem kallaðist Bangkok Midnight Food Tour by Tuk Tuk. Eins og nafnið bendir til þá ferðuðumst við um á Tuk Tuk á milli staða þar sem matarmenning heimamanna var kynnt fyrir okkur. Ótrúlega skemmtileg ferð sem var hverra krónu virði.
Leiðsögumaðurinn okkar, Giamo, var einstaklega skemmtileg og sagði vel frá öllu. Ljóst var að hún var virt hvar sem við komum þrátt fyrir ungan aldur. En hættum nú öllu masi og njótum myndanna.
Maturinn kemur að lokum hér en ekki allur því við vorum orðin svo södd fljótlega að ekki tókst að mynda þá sem eftir komu.
Allt endaði þetta á blómamarkaði og síðan á bar áður en haldið var á hótelið
0 Comments