Nú er að styttast í að við yfirgefum Nha Trang en það er reyndar fátt sem við söknum þar úr bæjarlífinu en hinsvegar er strandalífið og sundlaugarbakkinn sem skilur eftir sig fullt af minningum svo og ferðin yfir í Vinpearl eyju. Áslaug saknar ekkert rússana sem stöðugt voru að áreyta okkur með þarlendum auglýsingum. Reyndar byrjaði þó dagurinn á því að Áslaug fór til rússnesk gæludýrasala og keypti þar tvær hundaólar. Það sem meira er, eins og allir vita, að þá eigum við enga hunda né síður erum við að fara að fá okkur slíka. Hver skyldi vera ástæðan spyr ég?

Það hafa nú farið sögur af morgunverðarborðinu á hótelinu hér á blogginu en nú brá svo við að við hjónin sáum við hótelinu og skelltum okkur yfir götuna fyrir framan hótelið og fengum okkur þennan dýrindis morgunverð sem síðan var étinn upp á hóteli. Þeim varð nú ekki kápan úr klæðinu að reyna að troða í okkur meira af japönsku gutli í morgunmat.



Eins og sjá má á myndinni hefur mér ekki gengið allt of vel að komast niður úr þessum eðalpela af íslensku gini sem ég tók með mér að heiman. Ljúft er þó að hafa minningar með sér og geta yljað sér yfir eðaldrykk á kvöldin eftir annasama daga.

Lítið varð úr sólarsleikjum í dag enda þurftum við að losa herbergið fyrir klukkan 11 og því ekki eftir neinu að bíða en að losa það og fara síðan í góðan göngutúr. Allir „góðir“ göngutúrar enda að sjálfsögðu við gott borð þar sem höfðinglegar veigar eru bornar fram. Að þessu sinni var það Siglingaklúbburinn sem heimsóttur var eina ferðina enn eða reyndar í þriðja sinn. Allt er þegar fjórum sinnum er farið og alltaf drukkið nóg.




Þó ekki sé nú nema 31°C þegar þessar myndir voru teknar er ekki laust við að ég finni smá kuldahroll að sjá þann fatnað sem verið er að selja hér um slóðir. Á sama tíma gengum við fram á hjólreiðakeppni og ég verð að segja að sjaldan hef ég séð eins kraftlitla hjólreiðamenn komast í mark eins og ég náði á flöguna.


Séu hinsvegar einhver vankvæði á því að taka myndir þá er bara að fara út á götu og sjá þá sem eru að keyra um á vespum. Þar eru óþrjótandi uppsprettur góðra ljósmynda og læt ég eina koma hér. Margar búnar að koma en fleiri eftir að koma.


Það var rétt liðið fram í hádegið þegar lítill maður læddist inn í andyri hótelsins og bað snúningsstrákinn að kanna hvort ég væru mögulega maðurinn sem hann var að sækja ásamt konunni hans. Mikið rétt það reyndust við. Hér má aldrei lyfta einum einasta hlut nema í mesta lagi glasi án þess að stokkið sé upp til handa og fóta til að létta okkur verkin. Held að ég geti með sanni sagt að einu skiptin sem ég hef haldið á okkar töskum frá því við fórum að heiman hafi verið til að setja þær á viktina á flugvöllum og síðan að taka þær af færibandinu þegar þær koma úr fluginu. Allt annað er séð um. Léti mér ekki bregða ef við værum sjálf borin á milli slík er þjónustan hér sem ferðaskrifstofan, sem við erum á vegum, er með. 


Þegar á flugvöllinn kom þá reyndist vera smá seinkun á fluginu sem kom ekki að sök nema að við gátum ekki fengið okkur Burger King hamborgara og bjór, eins og á öllum öðrum flugvöllum hér í landi, þar sem við héldum að veitingastaðurinn væri ekki bara fyrir utan öryggishliðið heldur líka fyrir innan eins og vant hefur verið. Burger King og bjór er snilldin ein.


Flugið var hressilegt enda mikil hreyfing á köflum sem fær mig til að njóta flugsins vel. Þá finnst vel hversu öflugar þessar vélar eru. Notaði tímann vel á fluginu og vann lokahöndina á síðasta verkefninu úr náminu mínu. Á reyndar eftir smá snurfus en klára það síðar í kvöld eða á morgun.

Ho Chi Ming eða bara Saigon er engin smá borg. Þvílíkt að horfa yfir borgina enda var flogið lengi yfir áður en að flugbrautinn var komið. En ein súperþjónustan við að koma okkur frá flugvellinum og upp á hótelið. Tók reyndar ekki nema rúman hálftíma að koma okkur hingað á hótelið en áströlsku vinkonur okkar voru þá þegar mættar og búnar að skoða hótelið. Gefin var skýrsla á fésbókarsamskiptum sem Áslaug annast skilmerkilega. Hef grun um að Ástralía sé um það bil að komast á ferðadagskrá enda heimboð á þrjá staði í Sidney.


Ég alveg dáist að umferðinni hér. Nú erum við búin að ferðast frá Hanoi og hingað suður í Ho Chi Ming borg. Hvergi hef ég heyrt eins lítið flautað eins og hér en umferðin er margföld á við það sem við höfum séð hingað til. Hér gengur umferðin alveg ótrúlega vel og að sögn leiðsögumanna eru sára fá umferðaslys. Þegar á hótelið kom þá var það vanalega aðferðin að við látum vita af okkur hjá gestamóttökunni en síðan er okkur vísað til sætis þar sem boðið er upp á hressingu og síðan er komið með skráningaskjölin að borðinu og gengið frá þeim. Ekki eins og við eigum að venjast víðast hvar að standa við skenkinn og fylla út skjölin sem starfsmennirnir hafa merkt með X þar sem við eigum að fylla út. Hér vinnur fólkið sína vinnu sem er að láta okkur líða vel. Og hótelherbergið… Myndin segir söguna.


Við tókum kvöldinu létt. Fórum aðeins út af hótelinu til að fá okkur að borða. Að sjálfsögðu skáluðum við fyrir Steinunni. Ekkert markvert sem þar gerðist nema á næsta borði fóru fram viðskipti þar sem miðaldra karlmaður af asísku bergi brotnu var að velja sér bólfélaga næturinnar. Við ákváðum bara að láta staðar numið og koma okkur upp á hótel enda langur og strangur dagur framundan. Nú er ekki lengur neitt sundlaugarhangs, baðstrandaleti eða vökvun á innri þurrki með tveggja tíma millibili. Nú er það bara harkan að halda úti í átta tíma í kuldanum hér. Spáin segir 32°C á morgun.