Nú er síðasti dagurinn í Saigon, eða Ho Chi Ming, runninn upp. Reyndar ekki alveg sá síðasti í Víetnam. Við vorum búin að gera áætlun um að hvílast vel til að undirbúa heimferðina. Við tékkuðum út af hótelinu rétt fyrir hádegi og síðan skyldi haldið í síðustu gönguferðina um miðborgina og finna okkur stað til að snæða hádegismat. Allt í einu vorum við stödd í miðjum mótmælum og í baklandinu voru allir að vígbúast á þann hátt að við sáum sæng okkar útbreidda og létum okkur hverfa af svæðinu. Leit ekki vel út þegar við fórum en við vorum heldur ekkert að kynna okkur endalokin. Þess í stað höfðum við meiri áhyggjur af hvað við ætluðu að borða í hádegismat.


Við völdum dálítið sérstakan stað enda var ekki hægt að fá vín með matnum eins og við áætluðum en tókum þetta bara út með Saigon bjór. Vel við hæfi að okkur fannst. Við ætluðum líka að njóta sólarinnar og því var lagst á sundlaugarbakkan á hótelinu. Sjaldan hefur verið eins erfitt að liggja í sólbaði og akkurat þarna. Ekki fyrir það að komin væri heimþrá né að skortur væri á veitingum. Nei fjarri því heldur var hitinn þvílíkur að ekki var þurr þráður á hjónunum og það sem meira var að við vorum að fara í flug. Sem betur fer vorum við á þvílíku súper hóteli að boðið var að fara í sturtu sem ég varð að gera til að eiga möguleika á að fara í langt ferðalag.

Ísbúðin, sem heimsótt var tveimur dögum fyrr, var könnuð en nú fór allt í þveröfuga átt við fyrri reynslu okkar á ísbúðinni. Ekki stóð á því að þjónar spruttu upp á hverju horni heldur áttu þeir í miklum erfiðleikum með að skilja ensku. Ekki tókst fyrr en í annarri tilraun að fá þau til að skilja hvað við vildum. Þá fór hver þjónninn á fætur öðrum að bjóða okkur upp á vatn sem við höfðum hafnað í fyrstu en þau voru sannarlega áfjáð í að við drykkjum vatnið þeirra. Þá kom þjónn og lagði á borðið hjá okkur. Servéttu og sogrör fyrir Áslaugu en servéttu og skeið hjá mér. Við vorum sannfærð um að þetta væri nú bara að byrja hjá þeim og það átti eftir að koma í ljós. Áslaug pantaði sér tvær ískúlur, eins og ég, en svo vildi hún fá ananassafa auk þess sem við hjónin báðum um tvo kalda Heineken bjóra. Sem betur fer las þjónninn upp hvað hann hafði skrifað niður og í stað ískaldans ananassafa var komið upphitað eplapæ. Jæja nú þurfti Áslaug að taka til sinna mála og draga þjóninn að kæliskápnum og benda á hvað hún vildi. Ekki tók betra við því þjónninn vildi láta hana hafa kalda mjólk. Á endanum tókst að koma þessu til skila og nú hófst biðin. Bak við afgreiðsluborðið gekk mikið á. Skyndilega dúkkaði þar upp full fata af klaka og í hana var troðið flösku af ananassafa og tveir Heineken bjórar. Margt benti til þess að þessa væru drykkir ætlaðir okkur en ekki var neitt fararsnið á drykkjunum frá ísborðinu. Nú fór þó að sjást í ísdiskana. Þjónarnir, já við erum í alvöru ísbúð, komu nú með ísinn okkar en áður en við gátum rönd við reist hurfu þeir sjónum okkar og Áslaug sat uppi með sogrör en enga skeið. Eftir talsverð köll kom þó þjóninn og uppgötvaðist að hér vantaði skeið. Ekki bara einn heldur tveir þjónar skelltu sér í verkið. Það bar lítið á því að samvinna væri milli þeirra en við biðum enn eftir drykkjunum. Áslaug skellti sér þá að afgreiðsluborðinu og spurðist fyrir um drykkina. Skýringin var sú að verið væri að kæla drykkina sem reyndar höfðu verið í kælinum sem líklega var ekki að vinna vinnuna sína. Á endanum var komið með drykkina og full glös af klökum því þjónarnir höfðu þá gert sér væntanlega grein fyrir því að ekki er hægt að kæla heita drykki á tíu mínútum. 


 

Nú héldum við á hótelið í síðasta sinn en búið var að útvega bíl til að fara með okkur út á flugvöll. Eins og í gegnum alla ferðina var hér á ferðinni enn einn eðalvagninn. Innritunin gekk eins og í sögu en ekki var mögulegt að innrita farangurinn lengra en til Hanoi. Við áttum þó að eiga nægan tíma þar til að skipta um flugvél og fara með farangurinn á milli innan- og millilandaflugvallarins. Við fórum inn á veitingastað. Þegar við vorum komin inn fyrir öryggisleitina og þá hófust lætin. Í fyrstu var þetta eins og að óhljóð hafi komið í loftræstinguna en brátt áttuðum við okkur á því að hér var það rigning fyrir utan sem buldi með þvílíkum látum á flugvallarbyggingunni. Þá hófust þrumur og eldingar og allur himininn logaði. Ekki leit þetta vel út á töflunni með brottförum en öll önnur flugfélög en okkar, Vietnam Airways, voru komin með seinkanir. Það átti þó eftir að koma hjá okkar flugfélagi og á endanum fór flugið ekki fyrr en klukkutíma síðar í loftið. Við flugum þægilegu flugi með Boeing 787 Dreamliner til Hanoi og lentum þar klukkan 11. Farangurinn okkar hafði verið setur í forgang svo hann varð fyrstur á færibandinu. Hröðuðu við okkur á milli flugstöðva og náðum tímanlega í innritun. Nú var komið fast að miðnætti og sannarlega vorum við ánægð með að vera loksins komin í örygga heimferð þar sem töskurnar yrðu næst á vegi okkur í borginni við Sundin á morgun.