Dagurinn byrjaði heldur snemma hjá okkur hjónum eða kl 01:00 í nótt eftir fjögurra tíma svefn. Áslaug kom ekki dúr á auga fyrr en undir morgun en ég náði að pína mig til kl. 04:00. Þá var tekin sameiginleg ákvörðun um að fara að skoða hvað væri að gerast í netheimum. Nýtti ég tímann í að vinna verkefni fyrir skólann en við ákváðum að fara í morgunmat eigi síðar en 06:45 og stóðst það. Við morgunverðarborðið vorum við að velta því fyrir okkur hverjir það væru af þeim sem í morgunmatnum væru í okkar hóp og reyndist ég þar sannspár. Þrjár eldri konur sátu þar saman og var ég sannfærður um að þarna væri hópur sem yrði með okkur í dag. Ég gæti skrifað mikla langloku um hvað við gerðum og hvert við fórum en ætla að sleppa því að þessu sinni. Við hinsvegar fórum vítt og breytt hér um miðborgina og skoðuðum grafhýsi Ho Chi Ming sem reyndar var lokað í dag og næstu þrjá mánuði. Kallinn líklegast orðinn nokkuð þreyttur á heimsóknum en hann fær alltaf þriggja mánaða hvíld eftir þjóðhátíðardaginn að sögn leiðsögumannsins. Við finnum alveg fyrir því að vera í kommúnistaríki og er áróðurinn alveg sýnilegur. Þannig er það bara. Byrjun dagsins var þó einstök þar sem okkur var sagt að Áslaug kæmist ekki í Búddahofið þar sem axlirnar væru berar. Þá er hlutunum bjargað með að aukastuttbuxurnar sem áttu að hylja hnén voru notaðar til að hylja axlirnar. Þegar inn var komið var ekki hægt að sjá að fólk hyldi hvorki axlir né hné og skipti þar engu hvort um heimamenn væri að ræða eða útlendinga. Stuttbuxurnar voru því ekkert meira notaðar á öxlum. Mannlífið er fjölbreytilegt og afar áhugavert ef svo má að orði komast. Hér búa átta milljónir og fimm milljónir vespa ryðjast hér um göturnar enda engar almenningssamgöngur að sögn leiðsögumannsins. Sá meðal annars bók í dag sem fjallaði um hvað væri hægt að setja mikið af farangri á eitt slíkt farartæki. Í lok dagsins fengum við yfir okkur hellirigningu svo ekki var þurr þráður á mér en Áslaug var skynsöm og ákvað að bíða í bílnum. Hún missti einungis af einu Búddahofi. Hér koma myndir dagsins.
Skoðunarferð um Hanoi
231 Views
0 Comment
By: Hilmar Snorrason
Tags: