Ég hafði eiginlega ákveðið að hafa fyrirsögnina fyrir daginn í dag að ekkert markvert hefði gerst hjá okkur. Það er í raun hauga lýgi og því verður fyrirsögnin allt önnur. Dagurinn er afslöppunardagur enda ekkert á dagskrá okkar annað en að vera hvors annars gleðigjafi. Sannarlega stóðum við okkur vel í því enda ekki við öðru að búast. Strax að loknum morgunverð var sundlaug hótelsins heimsótt og við skelltum okkur í laugina. Hún var í kaldara lagi en það beit ekki á okkur víkingana. Þá var haldið í gönguferð þar sem okkur hafði verið sagt að skammt frá væri markaður. Þegar þangað kom reyndist það nú bara vera verslunarmiðstöð og því lítið annað að gera en að finna næsta bar og byggja upp á ný vökvatapið sem við höfðum orðið fyrir á göngunni. Þrátt fyrir fríið þá eru samt öryggismálin alltaf í gangi.




Sú aðgerð hepnaðist með þvílíkum ágætum að okkur var ekki til setunnar boðið heldur arkað á ströndina þar sem hægt var að leigja bekki og handklæði. Við fengum okkur hádegismat í brugghúsi þar sem ég fékk mér bjór fernu meðan Áslaug skellti í sér Jarðaberjamargarítu. Áslaug elskar sjósund og stóð sig vel í því en hinsvegar er ég slakari í því. Ekki langt undan var þó verið að leigja kænur og skellti ég mér á eins segla tvíbitnu. Á leiðinni á leiguna gekk ég fram á seðlaveski í fjöruborðinu sem velktist þar um. Ég opnaði það og reyndist eitthvað af peningum í því sem og ljósmynd. Það var ekkert annað fyrir mig að gera en að biðja gaurinn á leigunni að taka það og hafa samband enda var það heimamaður sem átti veskið. Þegar kom að því að semja um verð fyrir klukkustund spurði gaurinn mig hvaðan ég væri og gladdist mikið þegar ég reyndist ekki vera rússi. Honum var ekki vel við þá einhverra hluta vegna. Hinsvegar varð hann mjög ánægður með íslendinginn og sagðist elska Gudjonsen. Ekki í fyrsta sinn sem hann Eiður reynist mér vel því ég fékk skútuna á hálfa milljón í stað átta hundruð þúsund. 








Eftir siglinguna þurfti að hafa hraðar hendur (og fætur) að koma sér upp á hótel þar sem maginn hafði klárlega innbyrt eitthvað um morguninn sem ekki var alveg sátt um í meltingakerfinu.

Aftur heimsóttum við hótelsundlaugina þar sem áströlsku vinkonur okkar voru staddar og var lagt á ráðin að hittast annað kvöld og borða saman. Við hjónin fórum síðan í gönguferð og fundum þennan fína veitingastað þar sem við nutum ljósaskiptanna. Reyndar vorum við sammála um að minn matur var frekar rýr eða aðeins tvö rif af svíni. Nutum þess að sjá borgina fara í kvöldbúninginn sinn. Við sáum líka fjöldan allan af ljósum við hafsbrún þegar myrkrið var að skella á en það voru fiskiskip sem voru að hefja veiðar í ljósaskiptunum. Myndir segja meira en mörg orð.