Nú voru síðustu stundirnar í Víetnam að líða undir lok. Reyndar var þeim eytt í flugstöðinni í Hanoi en við áttum flug áfram kl. 01:30. 
Við brottförina frá þessu fagra landi er ekki laust við að hugurinn leiti til baka yfir þá daga sem við dvöldum hér. Fegurð landsins er einstök sem og vingjarnleiki heimamanna. Við ferðuðumst frá norðri til suðurs og fengum að sjá þá staði sem við höfðum haft hug á að sjá og miklu meira. Það kom verulega á óvart hvernig þetta ríki sem er stjórnað af kommúnistaflokknum er í sjálfu sér afar kapítalískt. Andstæðurnar eru miklar í landinu og stór munur á milli norðurs og suðurs þegar horft er í baksýnisspegilinn.

Ég ætla ekki að gera einhvera heildargreiningu á landinu og hvað fyrir augu bar enda má lesa það allt í öllum bloggunum frá síðustu vikum. Það eru þó ferðafélagarnir sem sannarlega skilja eftir sig skemmtilegar minningar. Áströlsku vinkonur okkur og síðan þær pólsku voru skemmtilegir ferðafélagar sem við áttum margar hláturstundir með. Þó verð ég að geta nokkurra ógleymanlegra frásagna leiðsögumanna og annarra sem urðu á vegi okkar. Enskuframburðurinn var nú ekki sá allra besti en byrjað með afbrigðum í fluginu hingað. Flugfreyjan sagði í ávörpum sínum Ladies and chairmen. Átti líklegast að vera gentlemen eða að hún var að ávarpa gamla formann IASST. Þá var það kallinn sem hjólaði með mig um Hanoi og var að tala um alla þessa hobbital. Var lengi að átta mig á hvað hann var að fara eða þar til ég sá sjúkrabíl við einn hobbitalinn hans. Átti sem sagt að vera hospital. Þá voru það aparnir sem földu bílinn. Monkey gerði þetta og hitt en þetta var okkur í hópnum með öllu óskiljanlegt hvernig apar kæmu gömlum bíl fyrir í klaustri. Þá fór leiðsögumaðurinn að tala um að monkeyarnir væru að taka á móti ungum mönnum sem hefðu áhuga á að ganga í klaustrið. Hann var sem sagt að tala um monks eða munka. Meira að segja áströlsku stelpurnar okkar voru svo ráðviltar þegar á þessu stóð.

Við nutum ljúfra drykkja á góðum kvöldum

Skoðuðum fjöldan allan af merkilegum byggingum

Kynntumst skemmtilegu fólki

Borðuðum með nýju fólki á hverjum degi því sem næst

Ég sá meira að segja nokkur kaupskip og náði að mynda þau

Áslaug var alltaf boðin og búin að aðstoða fólk sem komið hafði langan veg til að eignast minningar

Sigla á skemmtilega hönnuðum skipum

Létum sauma á okkur föt

Fórum í rómantískar siglingar á síðkvöldum

Kynntumst innfæddum sem sannarlega voru einlægir
Ótrúleg fegurð hvar sem við fórum

Fórum í lengsta kláf í heimi

Fræddumst um Víetnamstríðið og hörmungar þess

Hvernig heimamenn á ákveðnum svæðum herjuðu frá neðanjarðargöngum

Nutum víns á góðum stundum þótt stundum höfðum við áhyggjur af þjónum sem ekki voru vanir slíkri þjónustu

Versluðum lítið en samt var hugsað til barnabarnanna

Líka þurfti blævængi til að búa til kælingu út á götu og þá voru það götusalarnir sem skipt var við

Salernismenning var á stundum önnur en við eigum að venjast

Og svo voru það aðvaranir um hættur enda víða öryggismál höfð í hávegum

En stundum var algjör óþarfi að hafa litið eldhús veitingastaðanna augum heldur bara njóta matarins sem var frábær
Sem sagt frábært. En nú að heimferðinni.

Það má segja að lánið hafi leikið við okkur þar sem við sátum mjög aftarlega í Boeing 777 frá Emirates en mjög fátt var í vélinni. Var okkur boðið að fá sitt hvora fjögurra sæta raðirnar til að við gætum lagt okkur á leiðinni varð algjör himnasending. Dubai var skiptistöð næturinnar en þangað komum við eftir rúmlega sex tíma flug. Það var hellingur sem vantaði upp á svefn hjá mér þegar þangað kom þrátt fyrir að ég hafi sofið vel á leiðinni. Nú þegar þetta er skrifað erum við í á neðri hæðinni í Airbus 380 yfir Svartahafi á leið til Kaupmannahafnar. Þar verður stoppað í rúma fimm tíma en allt óráðið hvað verður gert á þeim tíma enda frekar spurning hvenær við getum losnað við farangurinn áfram heim.

Lýkur hér frásögninni af för okkar hjóna til Víet Nam. Eftir lendingur í Kaupmannahöfn var ferðaþreyta farin að segja til sín þrátt fyrir að við höfðum náð allt að sex tíma svefni frá því við fórum frá landinu. Þessi ferð er búin að vera ógleymanleg og mælum við 100% með ferð til þessa áhugaverða lands bæði hvað varðar sögu, menningu, veðurfar og vinsemd þjóðar.